Jólatrésbrauð

Home / Brauð & samlokur / Jólatrésbrauð

Nú er minna en mánuður til jóla og uppáhalds tíminn minn að renna upp, aðventan. Á aðventunni nýt ég stundarinnar og geri bara það sem er skemmtilegt. Matarboð, bakstur með börnunum, kertaljós, jólagjafir, jólabjór, jólarauðvín, jólasúkkulaði jóla jóla jóla! Það fer eitthvað minna fyrir einhverri allsherjar jólahreingerningu, enda svo dimmt á þessum árstíma að það er alltaf eins og maður sé nýbúinn að þrífa (hóst). En já þetta er sannarlega tími til að gleðjast og hafa það huggó.

Eitt af því sem að er farið að vera hefð hjá fjölskyldunni á aðventunni er að gera þessar sætu, sparilegu, lungnamjúku og bragðgóðu jólabollur. Uppskriftin birtist í Gestgjafanum (16. tbl 2010) og sló í gegn á mínu heimili og er alltaf bökuð í desember við mikla ánægju fjölskyldumeðlima. Nú er bara að bretta upp ermarnar, skella á sig svuntuna, fara vel inní aðventuna og prufa að gera þessar dásamlegu bollur!

Jólatrésbrauð
5 dl mjólk
80 g smjör
2 msk þurrger
750 g  hveiti
1 tsk salt
80 g sykur

Ofaná
1 egg, samanpískað
skrautsykur

Aðferð
Hitið mjólk og smjör saman þar til að er fingurvolgt eða um það bil 37°C. Setjið ger út í mjólkina og hrærið þar til það er uppleyst. Blandið hveiti, salti og sykri saman í skál, vætið í með gerblöndunni og hnoðið í samfellt deig. Breiðið plastfilmu eða viskastykki yfir skálina og látið deigið hefast í u.þ.b. klukkutíma á hlýjum stað eða í kæliskáp yfir nótt. Setjið bökurnarpappír á ofnplötu. Formið bollur og raðið upp í jólatré, hafið aðeins bil á milli bollanna því þær eiga eftir að hefast og síðan stækka enn meira við bakstur. Látið deigið hefast aftur á plötunni í 30 mínútur eða þar til það hefur tvöfaldast að stærð. Hitið ofninn í 220°C. Penslið deigið með eggi og stráið skrautsykri yfir. Bakið í miðjum ofni í 8-10 mínútur.

Leave your comment to Cancel Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.