Austurlensk kjúklingasúpa með kókosmjólk og chilíPrenta

Á þessum dimmu dögum er fátt betra en að gæða sér á góðri súpu og ekki verra ef hún er litrík, því litirnir hafa jákvæð áhrif á okkur. Þessi austurlenska kjúklingasúpa er bæði heilnæm, holl og bragðmikil og er að auki sérstaklega einföld í gerð. Í hana er notað chilímauk og fyrir þá sem vilja hafa hana extra bragðmikla þá er lítið mál að bæta út í hana meira chilímauki því það er ekkert verra að mínu mati ef hún rífur vel í. Þessi svíkur engan – njótið vel.

IMG_6546

Austurlensk kjúklingasúpa með kókosmjólk og chilí
900 ml kjúklingasoð (eða 900 ml vatn + 2 kjúklingateningar)
400 ml kókosmjólk
1 tsk sykur
1-2  tsk chilímauk, t.d. minched chily frá Blue dragon
1 tsk hvítlauksmauk, t.d. minched garlic frá Blue dragon
fínrifinn börkur af 1 lime
2 msk límónusafi
1 kjúklingabringa, elduð og skorin í litla bita
200 g sveppir
1 tómatur, saxaður
2 msk fiskisósa, t.d. fish sauce frá Blue dragon
½ búnt kóríander, saxað

Setjið kjúklingasoð og kókosmjólk saman í pott og hitið við vægan hita. Hrærið sykri, chilí- og hvítlauksmauki saman við ásamt fínrifnum berki af límónu. Setjið lokið á pottinn og hitið að suðu. Bætið kjúklingi, sveppum og tómati út í og hrærið af og til í súpunni í ca. 5 mínútur. Bætið að lokum límónusafa og fiskisósunni saman við súpuna í lokin. Berið fram og njótið.

Til að gera súpuna enn matarmeiri er kjörið að bæta saman við hana soðnum núðlum.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *