„Allt í einni pönnu“ lasagnaPrenta

Fljótlegt og frábært lasagna sem sparar uppvaskið svo um munar og bragðast dásamlega. Þetta er rétturinn sem smellpassar inn í líf okkar flestra á virkum dögum þegar tími til eldamennsku er af skornum skammti, en þegar okkur langar samt í eitthvað gott. Hér fara öll hráefnin á pönnuna og látið malla þar til heimilið ilmar eins og þið séuð komin til Ítalíu. Verði ykkur að góðu!

IMG_7358-2

„Allt í einni pönnu“ lasagna
Fyrir 4-6 manns
2 dósir af heilum tómötum
1 msk ólífuolía
1 laukur, saxaður
½ tsk salt
pipar
4 hvítlauksrif, pressuð
chilíflögur, t.d. chilí explosion
1 tsk ítalskt krydd, þurrkað (má nota t.d. oregano og timian í staðinn)
500 g nautahakk
lasagnaplötur, brotnar í 2-3 parta (ég notaði ferskar)
50 g parmesan, rifinn
200 g kotasæla
120 g mozzarellaostur, rifinn
Basilíka, fersk (má sleppa)

 

  1. Saxið tómatana gróflega eða látið á „pulse“ í matvinnsluvél í örstutta stund. Hitið olíu á pönnu og setjið laukinn, saltið og pipar á pönnunna og veltið þessu saman þar til laukurinn er farinn að mýkjast. Bætið þá hvítlauk, chilíflögum og ítölsku kryddi og hrærið á pönnunni í nokkrar sekúndur.
  2. Bætið kjötinu út á pönnuna þar til það er farið að brúnast. Leggið lasagnaplötur yfir allt og  og hellið tómötunum ásamt safanum yfir plöturnar. Aukið hitann í meðalháan og látið malla þar til pastaplöturnar eru orðnar mjúkar eða í um það bil 20-25 mínútur.
  3. Takið pönnuna af hitanum og blandið saman helming af mozzarella, parmesan  og ¼ af kotasælunni og setjið yfir. Látið afganginn af kotasælunni hér og þar í slettum yfir ostinn og endið á að setja afganginn af ostinum yfir allt.
  4. Látið pönnuna í ofninn á grill í stutta stund eða þar til osturinn hefur bráðnað og stráið síðan ferskri basilíku yfir. Það er líka hægt að láta þetta malla á pönnunni áfram þar til osturinn hefur bráðnað en það gefur að sjálfsögðu aðra áferð. Berið fram með góðu salati.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *