Ekta súkkulaðibrownies og sykurlaus áskorun

Home / Gestabloggarinn / Ekta súkkulaðibrownies og sykurlaus áskorun

Hún Júlía Magnúsdóttir heilsumarkþjálfi gaf í haust út bókina Lifðu til fulls og hlaut strax góðar viðtökur. Allar uppskriftirnar eru lausar við sykur, glútein sem og henta vel þeim sem eru vegan, ásamt sérkafla með kjötréttum.

Í bókinni er m.a. að finna dásamlega morgunverði, millimál, hollar útfærslur af vinsælum skyndibitum, Mexíkóréttum og sektarlausum sætindum ásamt ýmsum fróðleik, eins og hvernig skipta má út sykri og hvaða nátturulegu sætuefni ætti að velja. Hugmyndin er að jafnvel þeir sem telja sig engan tíma hafa í eldhúsinu geti með einföldum hætti eldað holla og góða rétti fyrir sig og fjölskylduna og án þess að nokkur sakni óhollari kostsins.

Júlía er dugleg í baráttunni gegn sykurpúkanum og núna heldur hún úti 14 daga ókeypis sykurlausri áskorun sem hófst 30.janúar. Áskoruninn er haldin einu sinni til tvisvar yfir árið og hefur þetta fengið frábærar viðtökur og allt að 20 þúsund manns tekið þátt hverju sinni. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur þetta frekar en frekari upplýsingar má finna hér.

Júlía var svo góð að deila með okkur uppskrift af ekta súkkulaðibrownies með kókosrjóma sem við getum ekki beðið með að prufa.

 

 

Ekta súkkulaði brownies
Botn
1 bolli möndlur (lagðar í bleyti í 2 klst. eða yfir nótt)
¾ bolli mjúkar döðlur, fjarlægið steininn
salt á hnífsoddi

Súkkulaðikrem
1 og ½ (c.a ¾ bolli) stórt fullþroskað avókadó
½ bolli kakóduft
¼ bolli kókosolía í fljótandi formi
¼ bolli mjúkar döðlur, fjarlægið steininn
4 dropar stevía frá via health
vanilluduft á hnífsoddi eða 1 tsk. vanilludropar
salt á hnífsoddi

  1. Malið möndlurnar vel í matvinnsluvél á lægstu stillingu.
  2. Bætið döðlum og salti út í og hrærið þar til blandan myndar deigkúlu sem helst vel saman (ef deigið er of þurrt má bæta við 1-2 tsk af kókosolíu í fljótandi formi). Þrýstið niður í 23 cm smelluform og geymið í kæli á meðan þið útbúið krem.
  3. Setjið næst öll innihaldsefni fyrir súkkulaðikremið í matvinnsluvél eða blandara og blandið þar til kremið er orðið silkimjúkt.
  4. Smyrjið kreminu á botninn og geymið kökuna í kæli eða frysti í klukkustund áður en hún er borin fram eða frystið yfir nótt.
  5. Njótið með kókosrjóma og berjum (kirsuber og jarðaber eru mitt uppáhald)

 

Kókosrjómi
Kókosdós, ég nota frá Coop merkið frá Nettó
2-3 steviudropar með vanillubragði (ég nota frá via health)
Kælið kókosmjólkina í ísskáp yfir nóttu.

  1. Hellið mestum vökvanum úr dósinni, þar til bara hnausþykki parturinn situr eftir og setjið í matvinnsluvél ásamt steviudropum. hrærið eins og þið mynduð venjulegan rjóma þar til áferðin minnir á hefðbundinn rjóma.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.