Veitingastaðurinn MESSINN

Home / Veitingahús / Veitingastaðurinn MESSINN
Ég hef lengi ætlað mér að skrifa um veitingastaðinn MESSANN enda er hann ofarlega í huga þegar kemur að því að velja veitingastað á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef frá því hann opnaði fyrir ári síðan notið þess að heimsækja þessa perlu og langar að deila upplifuninni með ykkur kæru lesendur. Sérstaklega fyrir ykkur sem hafið aldrei stigið þangað inn – þið hin vitið líklega um hvað ég er að tala.

 

Frábær matur verður alltaf enn betri í góðum félagsskap!
MESSINN er sjávarréttastaður sem staðsettur er á Lækjagötu 6b í fallega innréttuðu húsnæði þar sem umhverfið er látlaust og notalegt. Staðnum er ætlað að fanga andann sem Tjöruhúsið á Ísafirði hefur náð með framúrskarandi fiskréttum og góðri stemmningu.
Yfir staðnum er ákveðinn sveitasjarmi og þér finnst þú getað komið þar inn nákvæmlega eins og þú ert klæddur, hvort sem það er á lopapeysunni eða í sparifötunum og andi Ísafjarðar svífur þar um.
Ómótstæðileg humarsúpa
Hvínvínsglasið kemur á borðið og stuttu síðar kemur þjóninn með grófgerðra pönnu sem er vel útilátin af girnilegum fiski, kartöflum og sósu. Fallegir litir skipta mál, gulur, rauður, grænn og smá salt. Þarna væri eiginlega hægt að stoppa og vera fullkomlega sáttur því stór hluti af því að fara út að borða að mínu mati felst í notalegu andrúmslofti, skemmtilegri stemmningu, góðri þjónustu og hvernig maturinn er borinn fram. En jú framhaldið skiptir að sjálfsögðu máli.
Áfram skal haldið og fyrsti bitinn tekinn. Á þessu augnabliki langar mig að hafa hæfileika skáldsins til að geta gert upplifuninni nægilega góð skil, en mig hreinlega skortir orð. Veisla fyrir bragðlaukana, dásemd og fullkomnun eru orð sem koma upp í hugann.

 

Steinbítur með vínberjum í rjómaostasósu – uppáhalds
MESSINN er vinsæll staður, umsetinn fólki sem kemur saman til að spjalla, hlæja, skála, borða, gera sér glaðan dag eða bara slappa af. Extrovertinn í mér nýtur þess í botn að upplifa þessa stemmningu. Svona sveitastemmning. Afslappað og notalegt. Gleðilegt. Ávallt skal maður síðan heyra einhvern dásama matinn.
Það er erfitt að mæla með einhverju einu því hér er allt gott og óhætt að segja að hér geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Réttir sem eru í persónulegu uppáhaldi eru t.d. graflaxinn. Það kann að vera smá skrítið að borða graflax yfir sumartímann enda tengjum við íslendingar hann oftast við jólin – en þennan verðið þið hreinlega að prufa. Hágæða hráefni gera það að verkum að laxinn hreinlega bráðnar í munni. Humarsúpan er einnig frábær.
Laxaborgarinn komst í fréttirnar er Ricky Gervais skemmtikraftur var á landinu. Hann mætti á MESSANN og pantaði sér Laxaborgarann í tvígang og sagðist aldrei hafa bragðað betri fisk.
Fiskipanna með steinbíti og vínberjum í rjómaostasósu er svo einn besti sjávarréttur sem ég hef bragðað.

 

Það er alltaf pláss fyrir eftirrétt
Allt er gott sem endar vel og þrátt fyrir að vera pakksödd þá vita það nú allir að eftirréttahólfið er sér hólf sem er galtómt þrátt fyrir staðgóða máltíð (hoho). Það er því best að bæta úr því með ljúfum kaffibolla ásamt Créme caramel, súkkulaðiköku með karamellusósu eða geggjuðu berjabrjálæði…ummmm.
Það sem stendur upp úr eftir heimsókn á MESSANN er frábær matur, vel hannaður staður sem nær góðri tengingu við afslappaða sveitastemmningu Ísafjarðar, ásamt góðri þjónustu. Verðinu er stillt í hóf og hér má gera virkilega góð kaup á hágæðamat í hádeginu.
MESSINN og allt hans fólk fá fullt hús stiga.
“I’ll be back”

 

 

 

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.