Kjartan Sturlusson með uppskrift af ekta ítalskri pizzu sem slær í gegn!Prenta

Vefsetrið MINITALIA er hugarfóstur Kjartans Sturlusonar sem er mikill áhugamaður um Ítalíu, hvort sem það er matur, vín, land eða þjóð. MINITALIA fjallar einvörðungu um Ítalía á allan hátt, með sérstakri áherslu á matar- og vínmenningu þessa dásamlega lands. Kjartan bjó í Mílanó fyrir nokkrum árum og hefur farið í endalausar matar- og menningarreisur til fyrirheitna landsins. MINITALIA höfðar sterkt til þeirra sem hafa áhuga á Ítalíu, hvort sem við erum að tala um matargerð, vínmenningu eða ferðalög til þessa dásamlega lands.

 

 

Pizza Capricciosa
Pizza Capricciosa er ein af þessu klassísku pizzum sem hægt að finna á öllum betri pizzeríum á Ítalíu. Ómótstæðileg pizza þar sem ólík áleggin ganga saman í fullkomnum takti, hvort sem við erum að tala um hráskinkuna, ætisþistlana, sveppina eða svörtu ólífurnar. Þessa má líka finna með venjulegri skinku og stundum er bætt við harðsoðnu eggi, skornu í sneiðar. Pizza Capricciosa er dásamleg pizza þar sem einhverjir óútskýranlegir töfrar gera upplifunina ógleymanlega.

Pizzur eru yndislegt fyrirbæri og verða ennþá betri ef þeirra er notið í góðum félagsskap og jafnvel með glasi af léttu og ávaxtaríku rauðvíni.

 

Pizzadeigið er eitt af aðalatriðunum til þess að búa til góða pizzu. Þetta deig finnst mér vera næstum því fullkomið þar sem það einfalt, fljótlegt og auðvelt er fletja það út, hvort sem þú vilt hafa pizzuna þunna eða þykka. Uppskriftin miðast við tvær þunnar 12 tommu pizzur.

Picture

Pizzadeig
Fyrir 2 x 12″ botna
335 gr hveiti
1 tsk sykur
8 gr þurrger
6 gr salt
2 msk ólífuolía
200 ml volgt vatn

 1. Leysið gerið upp í helmingnum af volga vatninu.
 2. Bætið sykrinum við og hrærið saman við.
 3. Leysið saltið upp í hinum helmingnum af volga vatninu.
 4. Bætið ólífuolíunni út í saltvatnið og hrærið vel saman.
 5. Setjið hveitið í stóra skál
 6. Setjið allan vökvann út í hveitið og hnoðið vel saman, fyrst í skálinni en síðan á borðinu. Hnoðið deigið þar til það er orðið slétt og mjúkt.
 7. Myndið því næst bolta úr deiginu, leggið það aftur í skálina og látið hefast við stofuhita í 1-1,5 klst. Gott er að leggja rakan klút yfir skálina á meðan deigið er að hefast.
Pizzusósa
3 msk ólífuolía
1-2 hvítlauksgeirar
hálf lúka af ferskri basilíku 
1 dós af tómötum frá góðum framleiðanda, t.d. Cirio eða Del Cecco
Salt
Pipar
 1. Hitið ólífuolíuna á pönnu
 2. Hitið fínt saxaðan hvítlaukinn við vægan hita.
 3. Rífið basilíkublöðin niður með höndunum og bætið þeim á pönnuna ásamt tómötunum.
 4. Látið þetta malla við meðalhita í u.þ.b. 5 mínútur.
 5. Maukið sósuna í matvinnsluvél eða notið töfrasprota en við það verður sósan svo falleg og silkimjúk.
 6. Saltið og piprið eftir smekk.
 7. Leggið sósuna til hliðar og leyfið sósunni að kólna.
Pizza Capricciosa
pizzasósa
mozzarella
ætisþistlar
Svartar ólífur
hráskinka
sveppir
ólífuolía
 1. Fletjið út pizzudeigið
 2. Setjið passlegt magn af pizzasósunni á botninn.
 3. Dreifið mozzarellaosti yfir sósuna.
 4. Setjið síðan öll áleggin á pizzuna nema hráskinkuna; fyrst ætisþistlana, síðan sveppina og loks svörtu ólífurnar.
 5. Hellið smá slettu af ólífuolíu yfir pizzuna áður en þið setjið pizzuna inn í brennandi heitan ofninn.
 6. Bakið þar til botninn er orðinn stökkur, osturinn bráðinn og pizzan lítur einfaldlega stórkostlega út.
 7. Takið þá pizzuna úr ofninum, leggið hráskinkusneiðarnar yfir pizzuna og berið hana strax fram.

Gott er að notast við pizzustein, hvort sem pizzan er bökuð í ofni eða á útigrillinu. En þar sem ofnar, grill  og pizzusteinar eru mismunandi að gerð og virkni þá er einfaldlega erfitt að gefa upp nákvæman bökunartíma. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *