Um okkur

Velkomin á GulurRauðurGrænn&salt!  

grg7

Hér finnið þið uppskriftir að mat í lit..gulur, rauður og grænn því fleiri litir því betra. Uppskriftir sem ég hef prófað, margar þróað og verið ánægð með!

Maturinn sem ég elda er litríkur, fjölbreyttur, fallegur, bragðgóður, hollur og næringarríkur..en að sjálfsögðu bregður maður einstaka sinnum útaf vananum þar og sukkar smá….það má!

Á síðunni finnið þið fullt af uppskriftum sem eru einfaldar og fljótlegar og síðan nokkrar sem taka lengri tíma og kalla á rauðvínsglas og góða tónlist meðan dundað er við eldamennskuna.

Synir mínir hafa verið sérstakir aðstoðarmenn í eldhúsinu og tekið að sér dómarahlutverkið þegar ákveða skal hvaða réttir fá að fara inn. Ef uppskriftirnar reynast ekki ásættanlegar kenni ég þeim um!

Kæru matgæðingar, skoðið, eldið, smakkið, njótið og gefið ykkar álit. Það er svo miklu skemmtilegra….og við viljum sko hafa það skemmtilegt!
Ef þið hafið frá einhverju skemmtilegu að segja eða eruð jafnvel með ómissandi uppskrift sem þið viljið deila með okkur hinum ekki hika við að senda mér tölvupóst á netfangið berglind@grgs.is ég mun bara elska það! Öll myndartaka og uppsetning síðunnar er í mínum höndum. Vinsamlegast hafið samband við mig ef ykkur langar að birta uppskrift af síðunni.
 

Anna Rut Ingvadóttir er nýr bloggari GulurRauðurGrænn&salt

Ég hef haft brennandi áhuga á matargerð, bakstri og kökuskreytingum frá því ég man fyrst eftir mér. Þegar ég bjó síðan í Bandaríkjunum dýpkaði áhuginn á kökuskreytingum til muna eftir að ég fór á nokkur kökuskreytingarnámskeið hjá Wilton.

Vegna matreiðsluáhugans lá beinast við þegar ég var að velja mér háskólanám að fara í nám í heimilisfræðikennslu. Ég er með b.ed í faggreinakennslu í heimilisfræði og starfaði einnig sem heimilisfræðikennari í eitt ár áður en ég fór í meistaranám í mannauðsstjórnun.

Fyrir nokkrum árum síðan kom í ljós að maðurinn minn og synir okkar eru með glúten og mjólkuróþol og í ofanálag var ég nýlega greind með eggjaofnæmi. Þar sem það kom aldrei til greina að hætta að baka og elda ofan í fjölskylduna hef ég þurft að gerast hálfgerður sérfræðingur í sérfæði og er ég í dag sífellt að breyta uppskriftum og aðlaga þær að okkar þörfum.

Ég kem til með að deila hér ýmsum uppskriftum sem hafa verið í uppáhaldi hjá mér og minni fjölskyldu í gegnum árin. Stór hluti af þeim er ýmist eggja og mjólkurlaus (vegan) eða glúten og mjólkurlaus. Ég vona að ykkur muni líka uppskriftirnar og að ég geti einnig létt þeim lífið sem eru á sérfæði.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *