Pavlova í sparifötunum

Home / Jólin / Pavlova í sparifötunum

Nigella á heiðurinn að þessari fallegu og sparilegu súkkulaðipavlovu. Nigella er ein af mínum uppáhalds sjónvarpskokkum enda á hún margar frábærar uppskriftir og er bæði heillandi og skemmtilega óhefðbundin. Sumir gætu kannski verið komnir með leið á því þegar hún “vaknar” um miðja nótt og laumast í smá snarl og ég viðurkenni að það er oggupínku þreytt, en hún er engu að síður dásamleg og maturinn hennar oft algjörlega ómótstæðilegur! Þið getið skoðað fleiri uppskriftir frá henni hér
Þessi súkkulaðipavlova er ein af þessum einföldu og fögru kökum. Hún hentar fyrir um 10 manns en það er líka hægt að helminga uppskriftina og þá er hún lítil og fögur en alltaf jafn himnesk.

Pavlova í sparifötunum
súkkulaðibotn
6 eggjahvítur
300 gr sykur
3 msk kakóduft
1 tsk rauðvínsedik
50 gr. dökkur súkkulaðispænir

fylling
500 ml þeyttur rjómi
500 gr hindber
3 msk súkkulaði, saxað

Aðferð

  1. Stillið ofninn á 180°C.
  2. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær freyða. Bætið þá sykrinum varlega út í, einni matskeið í einu. Þeytið þar til eggjahvíturnar eru orðnar alveg mjög stífar.
  3. Bætið útí rauðvínsediki og súkkulaðispæninum og blandið varlega saman við með sleif.
  4. Látið blönduna á ofnplötu með smjörpappír og búið til ca 23 cm hring.
  5. Látið inn í ofn og lækkið í 150°C. Eldið í 1 klst og 15 mín.
  6. Slökkvið á ofninum, opnið hann og látið kökuna kólna í ofninum.
  7. Látið rjómann á, berin og dreifið síðan súkkulaðispæni yfir.
  8. Takið svo Nigellu á þetta og laumist á sloppnum niður í eldhús um miðja nótt og fáið ykkur væna sneið…þeas ef eitthvað er eftir.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.