Ég ætlaði að gera eitthvað hollt en það var svo mikil rigning að ég hætti við og gerði þessar súkkulaðibitasmákökur í staðinn….hlutirnir verða ekki rökréttari! Þetta var ást við fyrsta bita enda ólýsanlega bragðgóðar. Stökkar en um leið mjúkar, með mildu hnetusmjörbragði sem blandast ljúflega við súkkulaðidropana og salthnetubitana. Það besta er að það tekur enga stund að henda í svona sælu. Heppin ég að það rigndi ;)
Súkkulaðibitasmákökur með hnetusmjöri
Ca. 24 stk
175 g smjör, við stofuhita
115 g sykur
115 g púðusykur
4 msk hnetusmjör
160 g hveiti
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1 egg
1 tsk vanilludropar
150 g súkkulaðidropar
50 g salthnetur, gróft saxaðar
- Hrærið saman smjöri, sykri, púðusykri og hnetusmjöri þar til blandan er orðin létt og ljós. Bætið þá við egginu og hrærið áfram í nokkrar mínútur.
- Blandið saman í skál hveiti, matarsóda og salti og hellið saman við deigið og bætið síðan vanilludropunum út í.
- Látið súkkulaðidropana og salthneturnar út í og blandið varlega saman með sleif.
- Mótið kúlur úr deiginu og látið á ofnplötu með smjörpappír. Setjið inn í 180°C heitan ofn og bakið í kringum 10 mínútur.
- Takið úr ofninum og leyfið að kólna örlítið. Ef ykkur finnst vanta meira súkkulaði geti þið brætt súkkulaði og dreift yfir kökurnar með gaffli.
Leave a Reply