Indversk máltíð!

Home / Brauð & samlokur / Indversk máltíð!

Ég er algjört kósídýr og nýti hvert tækifæri til að hafa það huggó. Í mínum huga er kósí meðal annars góður matur, kertaljós, sófakvöld með krökkunum, myrkrið, mjúkir sokkar og rauðvínsglas svo eitthvað sé nefnt.  Á Vísindavefnum rakst ég hinsvegar á spurninguna Hvað er kósí?  og í tilefni þess að Bóndadagurinn nálgast og margir í kósíhugleiðingum langar mig til gamans að birta bráðskemmtilegt og að sjálfsögðu hávísindalegt svar þeirra við þessari spurningu.

 Eftirfarandi atriði eru kósí

  1. Að kveikja á kertum.
  2. Kósíkvöld: vídeó og nammi og helst að hafa það sem hefð á laugardögum.
  3. Að vinna inni á rigningardögum að sumri.
  4. Að sjá vorið koma og dagana verða lengri.
  5. Að drekka uppáhellt kaffi. Te er líka ágætt en heitt kakó með rjómavinnur kósí-vinninginn.
  6. Að þurfa ekki að elda mat þegar maður er þreyttur en fá samt góðan mat.
  7. Að lesa bók uppi í sófa.
  8. Að spjalla við gott fólk og þurfa ekki að flýta sér til verkefna.
  9. Að gefa öndunum brauð þegar þær eru hressar og ekki mikill vindur úti.
  10. Mjúkt …
  11. Fara upp í sumarbústað og fara í heitan pott.
  12. Að vera inni þegar það er vont veður.
  13. Kósí var hundur á Aragötunni sem dó á síðustu árum seinustu aldar.
  14. Að kúra með mjúku dýri sem er loðið eins og til dæmis með kisu.
  15. Jólin.
  16. Að fara í freyðibað.
  17. Spjalla við höfrunga úti á báti.
  18. Þegar einhver færir manni óvænt kósídrykk eða kósímat.
  19. Kósí er íslenskun á enska orðinu ‘cozy’ sem ensk-íslensk orðabók þýðir sem hlýr og notalegur, þægilegur, vistlegur en líka sem einhvers konar klæði til þess að halda tekatli heitum. Það hljómar kósí!
  20. Kona í sundi átti kollgátuna þegar hún sagði við dóttur sína: Við skulum baka bananabrauð einn daginn þegar það rignir úti en ekki núna þegar sólin skín.

Hvert er þitt kósí??

Í mínum huga er það að gæða sér á indverskum mat á topplistanum og það gladdi mig því mikið þegar mér áskotnaðist þessi ofureinfalda og dásamlega bragðgóða uppskrift af Tandoori kjúklingi sem ég bar að þessu sinni fram með klístruðum kókoshrísgrjónum, fljótlegu naanbrauði og raita jógúrtsósu.

Ég gaf mér að þessu sinni góðan tíma í undirbúning og lét kjúklinginn marinerast yfir nótt og raita sósuna gerði ég einnig með góðum fyrirvara. Ég valdi úrbeinuð kjúklingalæri frekar en kjúklingabringur og var það góð tilbreyting og ég er ekki frá því að lærin henti betur í þennan rétt. Klístruðu kókoshrísgrjónin og fljótlega naanbrauðið má finna í matreiðslubók minni Fljótlegir réttir fyrir sælkera – þar sem finna má fljótlegar og einfaldar uppskriftir að kvöldmat, meðlæti og eftirréttum. Ég nota bókina mjög mikið og tel að meðmælin verða ekki betri en það og mæli svo sannarlega með því að þið nælið ykkur í eintak þar sem hollustan og einfaldleikinn er í fyrirúmi.

Hér er á ferðinni frábær máltíð sem ég mæli svo sannarlega með því að þið eldið sem allra fyrst. Það er tilvalið að bjóða einhverjum memm enda ekkert betra en góður matur í góðum félagsskap. Njótið!

IMG_8157

Tandoori kjúklingur
Fyrir 4
4 kjúklingabringur eða ca. 10-12 úrbeinuð kjúklingalæri
4 dl hrein jógurt
1 ½ tsk salt
2 hvítlauksrif, pressuð
2 msk sítrónusafi
1 tsk Garam masala
½ tsk Chili duft
1 tsk Turmerik

  1. Blandið jógurt, hvítlauk, sítrónusafa og kryddum saman.
  2. Skerið hverja bringu í þrjá hluta og leggið í marineringuna. Látið liggja minnst 2 klst.
  3. Takið kjúklinginn úr marineringu, látið hana aðeins renna af bitunum og eldið kjúklinginn í ofni við 200°C í 20-25 mín eða þar til kjúklingur eldaður í gegn. Fylgist vel með í lokin og varist að ofelda hann.

 

IMG_8132 IMG_8135

4.9. fljótlegt naan

Fljótlegt naan
Það er ekki nauðsynlegt að eiga Tandoori-ofn úti á svölum til að elda gott naan brauð, þó það saki auðvitað ekki. Fyrir okkur sem eigum fondue-settið enn ónotað í kassanum er hins vegar tilvalið að geymagræjukaupin og snara fram þessu ljúffenga fljótlega naan-brauði á örfáum mínútum með gömlu góðu steikarpönnunni.

Gerir 4 brauð
Eldunartími 15 mínútur
150 g hveiti
1 tsk sykur
1 tsk lyftiduft
3 msk hrein jógúrt
1. Blandið hveiti, sykri og lyftidufti saman í skál. Bætið út í jógúrtinni. Ef þarf má
bæta við örlitlu vatni.
2. Skiptið deiginu í 4 kúlur og fletjið þær út. Steikið á pönnu.

 

4.10. Kókoshrísgrjón

Klístruð kókoshrísgrjón
fyrir 4-6
400 g jasmine hrísgrjón
480 ml kókosmjólk
420 ml vatn
2 msk kókosmjöl
½ tsk kókosolía (eða önnur olía)
½ tsk salt

  1. Smyrjið botninn á potti með olíu.
  2. Setjið hrísgrjónin, kókosmjólk, vatn og kókosmjöl í pottinn. Hitið að suðu og hrærið reglulega í pottinum. Þegar suðan er komin upp, hættið að hræra, lækkið hitann og setjið lok á pottinn. Látið malla í 15-20 mínútur. Hrærið þá í hrísgrjónunum með gaffli og verið viss um að mesti vökvinn sé farinn.
  3. Setjið lokið aftur á pottinn, slökkvið á hitanum og látið standa í 5-10 mínútur áður en þau eru borin fram.

IMG_8153

Raita sósa
20 cm agúrka, skorin í litla teninga
1 gulrót, skorið í litla teninga
2 tómatar, kjarnhreinsaðir og saxaðir
1 rauðlaukur, fínsaxaður
5-6 dl hrein jógúrt
2 msk ferskt coriander
½ tsk Cumin
¼ tsk paprikuduft

  1. Blandið öllu saman í skál.
  2. Láta sósuna standa minnst 1 klst til að bragðið komi vel í gegn (í lagi að gera kvöldi áður).

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.