Próteinpönnukökur með grískri jógúrt og bláberjasósu

Home / Eftirréttir & ís / Próteinpönnukökur með grískri jógúrt og bláberjasósu

Þá er september komin og haustið með, er það ekki bara alveg dásamlegt? Það er margt að gerast hjá GulurRauðurGrænn&salt þetta haustið og svo margar og himneskar uppskriftir í bígerð sem ættu að verða veisla fyrir bragðlaukana. Eftir nokkra daga fögnum við 2 ára afmæli vefsins og munum að því tilefni gera eitthvað sniðugt – svo það borgar sig svo sannarlega að fylgjast vel með.

 

Ég er svo afar stolt af því að tilkynna að við höfum verið í samstarfi við vini okkar á Local og í samvinnu við þá þróað frábært salat septembermánaðar á Local með kjúklingi, beikoni, eggjum, tómötum, fetaosti og fleira gúmmulaði í gómsætri sinnepsósu. Salat sem ég mæli svo sannarlega með því að þið prufið en Local er staðsett í Borgartúni 25 og opnar von bráðar í Smáralindinni.

 

salt

 

Þann 15. október verðum við síðan með matreiðslunámskeið á Salt eldhús þar sem við ætlum að kenna ykkur að elda einfaldan, fljótlegan, hollan og sérstaklega bragðgóðan mat á örstuttum tíma. Síðast seldist upp á námskeiðið og stemmningin var ólýsanleg – það verður gaman að endurtaka leikinn. Nánari upplýsingar og skráning er hér.

 

Matarvenjur okkar breytast hugsanlega eitthvað með breyttri árstíð og sé ég matarmiklar og góðar súpur koma sterklega inn í bland við girnilegar kökur, vinsæla kjúklingarétti og fleira góðgæti. Ég er spennt að gefa ykkur uppskrift dagsins en það eru hollar og dásamlegar próteinpönnukökur með grískri jógúrt og bláberjasósu. Hvað er betra en að byrja daginn með dásamlega bragðgóðum og mjúkum pönnukökum. Ekki er verra þegar þær eru að auki meinhollar og henta í raun sem hinn besti morgunmatur alla daga. Dagurinn byrjar vel með þessum.

 

IMG_4053

 

 

IMG_4055

Próteinpönnukökur með grískri jógúrt og bláberjasósu
80 g haframjöl
1 þroskaður banani
4 eggjahvítur
5 msk whey prótein frá Now, vanillu eða súkkulaðibragð
hnífsoddur kanill (má sleppa)
1 tsk vanilludropar
möndlumjólk til þykkingar, eftir þörfum
4 msk grísk jógúrt

Bláberjasósa
100 g bláber
1 msk agave sýróp
1 msk vatn

  1. Setjið haframjölið í matvinnsluvél og fínmalið þar til áferðin er orðin lík hveiti.
  2. Blandið saman haframjöli, próteini og kanil. Geymið.
  3. Stappið banana og blandið síðan eggjahvítum og vanilludropum saman við bananann og hrærið vel.
  4. Hellið bananablöndunni saman við haframjölsblönduna og hrærið í dágóða stund. Ef þörf er á bætið þá örlítið af möndlumjólk saman við.
  5. Setjið olíu á pönnu og hitið hana vel. Bætið þá deiginu út í og steikið pönnukökurnar í 1-2 mínútur á hvorri hlið.
  6. Gerið bláberjasósuna með því að láta bláber og sýróp saman í pott við vægan hita. Bætið vatni saman við og kremjið berin og þegar sósan er tilbúin takið af hitanum og setjið í skál.
  7. Staflið pönnukökunum á disk, látið 2 msk af grískri jógúrt ofaná og hellið bláberjasósu yfir.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.