Nú eru síðustu dagar í sumarfríi hjá mér og ég verð nú að segja að sólin mætti gjarnan skína aðeins á okkur hérna í Reykjavík. Hver bauð haustinu í heimsókn í júlí? Hver?????
Ég reyni að sjálfsögðu að gera gott úr þessu og gerði þessa dásamlega góða marmelaði úr apríkósum og engifer. Litir sólarinnar sko…er það ekki eitthvað (hohoho).
Þessi uppskrift er ofureinföld í gerð og þið sem sjáið orðið sultuhleypi og ætlið að loka síðunni…dokið við. Sultuhleypirinn er duft sem fæst í öllum matvöruverslunum og er sett í lokin til að hún þykkni og verði eins og sultur eiga að vera. Verður ekki einfaldara. Mæli svo sannarlega með að prufa þessa dásemd.
Algjört noms!
Apríkósu- og engifer marmelaði
1 kg apríkósur
1 sítróna, safi og börkur
1 msk ferskt engifer, fínrifið
1/2 dl vatn
350 g sykur
1 msk sultuhleypir (gelatín fæst í matvöruverslunum)
- Afhýðið apríkósurnar og fjarlægið steininn úr þeim. Þegar þetta er búið er raunþyngd um 500-600 g sem notast í marmelaðið.
- Skerið apríkósurnar í bita og setjið í pott ásamt fínrifnum sítrónuberki, sítrónusafa, engifer og vatni. Látið malla í 8-10 mínútur eða þar til apríkósurnar eru farnar að linast. Maukið þær aðeins með gaffli eða sleif. Mér þykir gott að hafa einstaka stærri bita í marmelaðinu en það er smekksatriði.
- Setjið sykur saman við og látið malla í 4-5 mínútur. Takið af hellunni og hrærið sultuhleypi saman við.
- Hellið heitri sultunni í krukku. Geymið í kæli.
Leave a Reply