Þetta kjúklingasalat er í miklu uppáhaldi hjá mér og það nægir í rauninni bara að horfa á það til að átta sig á því af hverju. Allir þessir fallegu litir komnir saman í matarmikla, næringarríka og ljúffenga máltíð. Reyndar svo ljúffenga að börnin borða þetta með allra bestu lyst, þó kannski sé fussað og sveiað áður en það er bragðað í fyrsta sinn. Í þessari uppskrift eru jarðaberin eiginlega möst en að öðru leyti getið þið leikið ykkur með hráefnin og magn og notað það sem til er í ísskápnum.
Einfalt og fljótlegt í gerð og svona máltíð sem getur bara ekki klikkað….ég tala nú ekki um ef þið eigið eins og eina vel kælda hvítvín(blikk,blikk).
Kjúklingasalat í öllum regnbogans litum
4 kjúklingabringur
kjúklingakrydd
bbq honey mustard sósa
1 poki klettasalat
1 askja kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
1 rauðlaukur
1/2 agúrka
1 Avocadó og/eða 1 mangó
100 g Ristaðar furuhnetur
1/2-1 krukka fetaostur (ekki setja olíuna með)
1 askja jarðaber
tortilla flögur
Salatdressing
1 dl olía
1/2 dl balsamic edik
1/2 dl dijon sinnep
1 dl hlynsíróp
1 hvítlauksgeiri, pressaður
- Skerið kjúklingabringurnar í litla munnbita og steiktið á pönnu. Kryddið með kjúklingakryddi og þegar kjötið hefur “lokast” er bbq sósunni hellt út á pönnuna og kjúklingurinn látinn malla í henni þar til hann er eldaður í gegn.
- Skerið grænmetið í hæfilega bita og raðið á disk.
- Hellið kjúklingum yfir og stráið ostinum og furuhnetunum yfir allt. Endið á muldum nachosflögum.
- Gerið sósuna með því að hræra öll hráefnin vel saman og berið hana fram með salatinu þannig að hver geti skammtað sér að vild.
- Tyggið vel og lengi og njótið matarins til hins ítrasta!
Leave a Reply