Þetta er með betri máltíðum sem ég hef bragðað í..tja að minnsta kosti nokkra klukkutíma. Kjúklingurinn marineraður í hlynsýrópi, gott basilpestó, tómatar og grillaður fetaostur gefa þessum rétti tíu stjörnur.
Ég er mikið farin að nota úrbeinuð kjúklingalæri og finnst þau vera góð tilbreyting frá kjúklingabringunum og gerði það í þessari uppskrift, bæði er þó afbragð. Rétturinn er dásamlega fljótlegur í gerð og tagliatelle og góðu salati er þetta hin fullkomna máltíð hvort sem er á virkum degi eða yfir helgi.
Dásamlegt basilpestó látið á kjúklingabitana..verið óhrædd að láta vel af pestói
Tómatsneiðum raðað yfir pestóið
Fetaosti dreift yfir allt og látið inn í ofn
Nýkomið úr ofni…hin fullkomna máltíð
Borið fram hér með tagliatelle og góðu salati
Basilkjúklingur með hlynsírópi og grilluðum fetaosti
600 g kjúklingabringur, skinnlausar (eða úrbeinuð kjúklingalæri)
1 krukka fetaostur í olíu
4 tómatar, skornir í sneiðar
ca. 200 ml hlynsíróp
basilpestó, aðkeypt td. frá SACLA eða heimagert (sjá uppskrift að neðan)
- Hellið hlynsírópi í eldfast mót og setjið kjúklingabitana þar í. Sírópið ætti að ná ca. 2/3 upp á kjúklingabitana.
- Látið rúmlega 1 msk af grænu pestó á hvern kjúklingabita.
- Skerið tómatana í sneiðar og raðið yfir kjúklinginn.
- Hellið olíunni af fetaostinum frá og dreifið fetaostinum yfir kjúklinginn.
- Setjið í ofn við 200°c í um 40-50 mínútur eða þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn og fetaosturinn er orðinn gullinn
Heimagert basilpestó
50 g basilíka, stilkar fjarlægðir
2 hvítlauksrif
5 msk ólífuolía
3 msk furuhnetur
3 msk parmesanostur
- Öll hráefnin sett í matvinnsluvél/töfrasprota og maukað vel saman.
Leave a Reply