Það er svo gaman að fá sendar skemmtilegar uppskriftir frá ykkur elsku lesendur. Þið gerið GulurRauðurGrænn&salt að frábærum uppskriftavef. Ef þið lumið á einhverjum perlum verið ófeimin að senda mér línu á berglind@grgs.is og hver veit nema ykkar uppskrift birtist á vefnum. Hún Eygló Hlín er mikill matgæðingur og hér kemur hún með uppskrift að ómótstæðilegum kókospönnslum.
Eygló Hlín Guðlaugsdóttir
Ég er 23 ára, pescetarian og lífsstílsáhugamanneskja inn og út í gegn. Ég hef prófað mig áfram með mataræði vel og mikið síðustu fjögur ár og fundið mig virkilega í ketó/LCHF. Það hjálpaði mér m.a. að komast í líkamlegra betra form en meltingin eignaðist líka nýtt líf en því má þakka að ketó er á sama tíma glúteinlaust og paleo mataræði. Ég hef fundið mína ástríðu til að skapa fjöldann allan af máltíðum en undirstaðan er mín matarheimspeki: Matur er næring.
Mínar uppskriftir verða oftast til þegar ég gramsa í skápunum heima, þannig má segja að ég elska afganga því þeir eru uppskretta sköpunarkrafts míns en ég deili lang flestu af mínum ævintýrum í eldhúsinu á snapchat.
Hef nú hafið áskorun með facebook síðu https://www.facebook.com/pescoketoeyglo/ , er á instagram https://www.instagram.com/pesco.keto.eyglo/ og á snapchat: eygloonamission.
Þessar pönnslur hafa fengið frábærar viðtökur á Snapchat hjá mér svo ég vildi endilega deila þeim frekar. Ég kalla þetta pönnslur því þetta er svo mitt á milli þess að vera pönnukökur og skonsur. Þær eru tilvaldar með allskonar áleggi, ég borða þær mjög oft með bertolli smjöri og osti eða túnfisksalati sem ég útbý.
Kókospönnslurnar tilbúnar
Hægt er að láta ýmiskonar álegg á pönnslunar
Kókospönnslur
3 egg
3msk kókosolía
3msk kókoshveiti
3msk kókosmjólk
¼ tsk lyftiduft
½ tsk salt
- Fyrst þeyti ég eggin sér í smá stund þar til það koma nokkrar loftbólur.
- Ég skelli kókosolíunni á pönnuna til að bræða hana og skelli henni svo útí eggin. Bæti öllu hráefninu við og blanda.
- Pannan er þá tilbúin og ég byrja ausa. Ég kem ca. þrem pönnslum fyrir í hvert skipti. Svo bæti ég við smá kókosolíu á pönnuna eftir hverjar þrjár sem steikjast.Síðan er lítið mál að gera sætari útgáfu fyrir meira dekur en þá á ég til með að bæta kanski 1msk af kókosmjólk við og ½ msk af erythritol.
Leave a Reply