Gestabloggarinn Berglind Sigmars

Home / Gestabloggarinn Berglind Sigmars

Gestabloggarinn að þessu sinni er hún Berglind Sigmars sem gaf nýverið út bókina Nýjir Heilsuréttir fjölskyldunnar. Berglind er fjögurra barna móðir og mikil áhugamanneskja um heilsu og matargerð. Hún hefur mikla reynslu af því að elda hollan mat og aðlaga uppáhaldsrétti barnanna að hollara og næringarríkara mataræði. Í þessari einstöku bók hefur hún notið aðstoðar eiginmanns síns, landsliðskokksins Sigurðar Gíslasonar, við gerð uppskriftanna og afraksturinn er glæsileg lífsstíls- og matreiðslubók, stútfull af girnilegum heilsuréttum sem allir eiga eftir að njóta. Bókin er frábær fyrir þá sem vilja taka mataræði fjölskyldunnar í gegn og bjóða upp á holla og ljúffenga rétti við allra hæfi.

nyir_heilsurettir_cover_mockup

Fyrir ári síðan, þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í bloggheiminum, fékk ég leyfi Berglindar fyrir því að birta uppskrift af frábærum fiskrétti úr bók hennar Heilsuréttir fjölskyldunnar. Sú bók sló heldur betur í gegn og nýja bókin hennar gefur henni ekkert eftir. Hún er stútfull af girnilegum uppskriftum og þar á meðal uppskriftin að þessari ómótstæðilegu Pipp hráköku sem ég gat hreinlega ekki hætt að hugsa um fyrr en ég prufaði hana og varð sko ekki fyrir vonbrigðum. Það er mér sönn ánægja að fá að birta hana hérna og ég vona að þið njótið.

Pipp- og hrákakaPipp hrákaka
Botn
300 g möndlur (án hýðis)
200 g mjúkar döðlur, steinlausar. Ef döðlurnar eru ekki mjúkar er ágætt að leggja þær í volgt vatn í 10-15 mínútur, hella vatninu af og nota þær svo.
1½ dl kakó, lífrænt

Aðferð

  1. Setjið möndlur í matvinnsluvél og malið fínt.
  2. Saxið döðlur og setjið út í matvinnsluvél ásamt kakói og blandið vel saman.
  3. Setjið smjörpappír í hringlaga form og þjappið blöndunni í formið. Setjið í frysti og búið næst til piparmyntukrem.

Piparmyntukrem
2 dl kasjúhnetur sem lagðar hafa verið í bleyti, sjá aðferð
1 dl kókosolía (mjúk en ekki fljótandi)
1 dl fljótandi sætuefni, agavesíróp eða lífrænt hunang
piparmyntudropar, að smekk

Ef þið notið hreina ilmkjarnaolíu þá eru 2 dropar nóg. Ágætt er að setja skeið undir þegar droparnir eru taldir því ef fleiri en tveir dropar fara óvart í kremið verður það of bragðsterkt og er því líklega ónýtt. Ef notaðir eru venjulegir piparmyntudropar þarf um 2 tsk.

Aðferð

  1. Setjið hneturnar í skál og látið kalt vatn yfir þar til flýtur yfir hneturnar. Látið standa í um 6 klukkustundir eða yfir nótt. Hellið þá öllu vatni af og setjið í matvinnsluvél.
  2. Bætið kókosolíu og sætuefni við og blandið vel þar til kekkjalaust og mjúkt.
  3. Setjið piparmyntudropa út í og blandið saman.

2-3 bananar, skornir í sneiðar
100-150 g 70% súkkulaði

Kakan sett saman

  1. Takið botninn úr frysti og smyrjið kreminu á.
  2. Sneiðið banana og raðið yfir.
  3. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og notið skeið til að hella yfir, svipað og á mynd. Kakan er þá tilbúin til að bera fram. Einnig má setja hana aftur í frysti og bera fram þegar hentar.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.