Þrátt fyrir að hafa bakað ótal uppskriftir af glútenlausu brauði eru ekki margar þeirra sem ég hef verið ánægð með. Þetta brauð aftur á móti er æðislegt. Það er alls ekki þurrt eins og oft vill verða með glútenlaus brauð heldur er það dúnmjúkt og bragðgott. Það tekur enga stund að skella í það og innihaldsefnin eru öll meinholl. Þið sem eruð í leit ykkar af fullkomna glútenlausa brauðinu einfaldlega verðið að prófa þetta.
Besta glútenlausa brauðið
1 bolli möndlumjöl, t.d. frá Now
2 msk chia fræ (lögð í bleyti)
2 msk vatn ( til að leggja chia fræin í)
¾ bolli örvarrótarmjöl (arrowroot) – fæst ódýrt í asískum búðum, ég kaupi þetta í þessari sem er á móti Hlemm. Líka möguleiki að nota tapioca mjöl í staðin.
1 tsk matarsódi
2 msk eplaedik
3 egg
smá salt
- Hitið ofninn í 180°C.
- Leggið chia fræin í bleyti í vatnið í lítilli skál, hrærið aðeins í til þess að fræin blotni örugglega öll.
- Sigtið örvarrótarmjölið og matarsódann í skál
- Blandið möndlumjölinu út í skálina og hrærið þurrefnunum vel saman með písk
- Setjið eggin, útbleyttu chia fræin og eplaedikið í skálina og hrærið öllu vel saman þar til deigið er kekkjalaust.
- Setjið smjörpappír í frekar lítið form að eigin vali og hellið blöndunni í formið.
- Bakið í 25 mínútur eða þangað til brauðið er bakað og það lyftir sér aftur upp þegar þrýst er á það með fingri
- Takið brauðið úr ofninum og kælið
Þetta er uppskrift að einu litlu brauði því ég kýs frekar að baka oftar og gera minni uppskrift í einu. Ef þið viljið baka stærra brauð sem passar í stórt brauðform þá þurfið þið að tvöfalda uppskriftina og baka brauðið í sirka 35 mínútur.
Leave a Reply