Ég ákvað að taka þetta afmælisdæmi alla leið. Kannski spilaði það inn í að mig langaði í köku, mögulega, en mér tókst að minnsta kosti auðveldlega að sannfæra mig um að það væri ekkert afmæli án köku og gerði því þessar einföldu, æðislegu og ómótstæðilegu bollakökur. Þær eru svo bragðgóðar að ég get ekki hætt að laumast í eldhúsið og fá mér eina..tvær..þrjár…fjó..vúps!
Þetta er í fyrsta sinn sem ég geri bollakökur og það kom mér bara á óvart hversu einfalt þetta var. Ég fjárfesti meira að segja í sprautupoka (mjög fullorðins) til að gera svona extra fancy krúsídúllur sem tókust svo vel að ég tímdi varla að borða þær (not). Ég vildi óska að þið gætuð komið í smakk til mín en það er góð hugmynd fyrir næsta afmæli ;)
Þakka allar kveðjurnar í dag – höldum áfram saman og höfum það gaman! Love Berglind xxxx
Bjútífúl bollakökur með vanillubragði
200 g smjör, við stofuhita
3 dl sykur
4 egg við stofuhita
7 dl hveiti
2 tsk lyftiduft
500 ml rjómi
2 tsk vanilludropar
- Blandið saman smjör og sykur þar til blandan er orðin létt og ljós. Þetta tekur um 5 mínútur.
- Bætið eggjum út í, einu í einu og hrærið áfram í nokkrar mínútur.
- Látið hveiti og lyftiduft saman í skál og sigtið 3 sinnum.
- Látið síðan hveitið, rjómann og vanilludropana í eggjablönduna og hrærið stuttlega.
- Látið kökurnar í muffinsform 1 kúfuð msk í hvert form.
- Bakið við 200°c heitan ofn í um 20-25 mínútur.
- Leyfið þeim að kólna lítillega áður en þið látið kremið á.
Sykurpúðakrem
3 eggjahvítur
1/2 tsk sítrónusafi
340 g sykur
65 ml vatn
2 tsk vanilludropar
- Látið eggjahvítur og sítrónusafa í tandurhreina og þurra hrærivélaskál og geymið (ekki byrja að hræra strax).
- Látið sykurinn, vatn og vanilludropa á pönnu og hrærið saman. Hitið síðan blönduna þar til hún hefur náð 120°c (nota kjöthitamæli). Þegar því er náð byrjið að hræra eggjahvíturnar á hæsta styrk. Þegar þær eru byrjaðar að freyða hellið þá fljótandi sykrinum smátt og smátt út í. Athugið að það er fátt verra en að fá heitan sykur á sig, farið varlega, látið heimilismenn vita að halda sér frá og passið að börn séu hvergi nálægt. Hrærið í 5 mínútur.
- Nú ætti blandan að vera orðin stíf og þykk. Sprautið á bollakökurnar.
Leave a Reply