Jólagæs TRIO

Home / Jólagæs TRIO

Trio er nýlegur veitingastaður staðsettur er í Austurstræti 8-10. Staðurinn er vel hannaður og þjónustan góð. Ég skellti mér þangað um daginn ásamt góðum vinkonum í sannkallaða jólaveislu og átti dásamlega skemmtilegt kvöld í hlýlegu umhverfi.

Kvöldið byrjaði vel þar sem barþjónninn kom færandi hendi með kokteila sem voru hver öðrum betri. Í uppáhaldin voru Bluberry bramble og Trio Margarita – báðir alveg hrikalega góðir.

image (5)                    image (4)

Frábær kokteill og flottur félagsskapur!

Þegar kom að því að panta vorum við með valkvíða því bæði partýplattinn og jólaplattinn heilluðu – ásamt svo mörgu öðru. Við völdum þá báða, deildum réttunum og smökkuðum allt. Fallega framreiddur matur, frumlegur og bragðgóður.

image (8)

Skelfisksúpa og grillaður humar ásamt sítrusmarineraðri rækju

image (3)                

Kryddpilsur með hrásalati úr jógúrt og pikklaðri gúrku

 

image (6)

Grafinn lax, mandarínur, sætt sinnep

 

image (7)

Grillað innralæri með steiktu smelki, spergil, seljurót og fáfnisgrasi

 

image (9)

 Pönnusteikt gæsabringa með innbökuðu gæsalæri og granateplasalati

 

image (11)

Steikt epli með kryddköku ásamt epla- og kanilkrapi – algjört lostæti!

Kvöldið var hið ánægjulegasta og ég mæli hiklaust með því að fara á Trio í góðum félagsskap, byrja jafnvel kvöldið á frábærum kokteil og gæða sér á afburðargóðum mat.

Eigendur TRIO voru svo góðir að gefa mér uppskriftina af jólagæsinni með ótrúlegu meðlæti sem sló í gegn í þessari heimsókn  og er nú hér fyrir ykkur til að njóta!

Jólagæs TRIO
Aðalréttur í 4ja rétta jólaveislu

Pönnusteikt gæsabringa með innbökuðum gæsalærum, vanillubættu nípumauki, engiferlegnum fennel, granateplasalati og koníaksgljáa

image (1) (1)

Gæs
1 Gæsabringa
80 g salt
1 l vatn
50 ml koníak
Olía
Sjávarsalt frá Saltverk
50 g smjör

  1. Bringan er snyrt og lundin tekin frá og notuð í annan smárétt. Saltinu og vatninu blandað saman og pískað þar til það leysist upp. Þá er bringan látin liggja í saltpæklinum í 2 klst, skoluð og þerruð.
  2. Steikarpanna er hituð á miklum hita og bringan steikt upp úr olíu á báðum hliðum u.þ.b. 1 mín í senn. Þá er pannan tekin af hitanum og koníakinu hellt yfir og strax smjörinu. Bringan lögð á bakka og smjörinu og koníakinu hrært saman í gljáa á pönnuni. Gljáanum hellt yfir bringuna, að lokum er góðu sjávarsalti sáldrað yfir. Bringan er svo bökuð undir yfirgrilli(salamander) í 2 mínútur og látin hvíla í nokkrar mínútur uns hún er skorin í þunnar sneiðar.

 

Innbökuð gæsalæri
10 gæsalæri
1 gulrót
1 fennel
1 laukur
2 hvítlaukar
2 lárviðarlauf
3 stjörnuanís
1 búnt timjan
2 msk fennelfræ
1 dökkur bjór (Myrkvi frá Borg t.d.)

  1. Gæsalærin eru snyrt og pönnusteikt við háan hita og svo lögð í djúpt eldfast mót. Grænmetið er allt hreinsað og skolað og skorið gróft, svo steikt á pönnu og bætt í mótið með kryddunum. Vatni og bjór svo bætt við. Lok sett á mótið og eldað á 80°c yfir nótt. Daginn eftir er allt kjötið pillað af beinunum og kælt. Soðið sigtað frá og soðið niður um helming eða þar til got bragð er komið í það.

Þá að hinum helmingi verkefnisins.

2 shallot laukar
1 gulrót
20 þurrkaðar apríkósur
30 ristaðar pecanhnetur
200 ml Gæsasoð
200 ml nautasoð
1 dl portvín
10-15 arkir brick deig (vorrúlludeig virka einnig)
300 g hreinsoðið smjör

  1. Laukarnir og gulrótin skorin mjög smátt og svituð léttilega í stórum potti. Gæsalærunum bætt við og látið krauma ögn lengur. Portvínið næst og soðið niður í 2 mín áður en soðunum er hellt yfir og látið sjóða varlega niður þar til lærin eru alveg dúnamjúk. Kássan er þá smökkuð til með salti, pipar og ögn af jarðsveppaolíu.
  2. Fínt skornum apríkósum og pecanhnetum bætt við eftir á Brick deigið er lagt á borð og smjörinu hellt yfir þannig að það sé meðhöndlanlegt. Ef það er mikið af sósu eftir í lærunum getur verið gott að sigta eitthvað af henna frá og geyma. Hver brick deigs örk er fyllt með u.þ.b. 2-3 msk af gæralærum, fyrst lagt yfir frá hægri og vinstri hlið og svo rúllað í vorrúllu. Endurtekið þar til gæsalærin klárast ;)

 

Vanillubætt nípumauk
3 nípur
350 ml rjómi
1 vanillustöng
2 tsk lífrænt hunang
Ylliblómaedik
Salt af hnífsoddi

  1. Nípurnar eru skrældar og skornar smátt, settar í pott með rjóma og soðnar í 15 mín eða þar til þær eru alveg meyrar. Fært í öflugan blender og maukað vel með vanillustönginni, athugið að það kemur mun meira bragð ef vanillustöngin fer öll út í. Maukið er þá sigtað í gegnum fínt sigti og smakkað til með hunangi, ediki og salti.

 

Engiferlegið fennel
250 g engifer
500 ml bragðlaus olía
1 stjörnuanís
4 fennel

  1. Engiferið skrælt og skorið í nokkuð litla bita, sett í pott ásamt olíunni og stjörnuanísnum. Olían hituð upp í 65°c og haldið í kringum það hitastig í 20-30 mín. Olían þá sett í blender og maukað vel, Marineringarolían þá sigtuð vel.
  2. Fennelið hreinsað og skolað og topparnir skornir af (þá er svo gott að nota í soð). Fennelið skorið í fernt og látið liggja í olíunni yfir nótt. Það hjálpar mikið ef hægt er að takmarka loft í marineringarferlinu t.d. með að vacuumpakka. Fennelið er svo hægeldað á 90°c í 30 mín og snöggkælt.
  3. Svo steikjum við fennelið á sjóðandi heitri pönnu svo það liggi við að það brenni, við þetta fæst stökk áferð og lítillega beiskt bragð.

Granateplasalat
Fræ úr 3 granateplum
1/3 romainehaus
1 japönsk pera
2 msk ristuð graskersfræ
400 ml rjómi
65 g flórsykur
Börkur af 1sítrónu
Ylliblómaedik

  1. Granateplafræjunum, romainesalatinu, og graskersfræjunum blandað saman í skál.
  2. Peran skræld og skorin í litla teninga og smá ylliblómaediki skvett yfir, svo blandað við afgang af salatinu.
  3. Rjómanum, rifnum sítrónuberki og flórsykri blandað saman í skál og rjóminn léttþeyttur. Öllu blandað saman líkt og um Waldorf salat væri að ræða ;)

 

Koníaksgljái
500 ml gæsasoð
500 ml nautasoð
2 dl koníak
2 gulrætur
2 shallot laukar
1 hvítlaukur, skorinn í helminga
2 msk ristuð kóríanderfræ
2 msk fennelfræ
2 msk svartur pipar, heill
100 g smjör

  1. Grænmetið skorið smátt og svitað í potti ásamt kryddunum, koníakinu bætt við og látið sjóða niður í 1 mín. Soðunum bætt við og soðið niður við lágan hita í rúmlega. Um að gera að skúmma fituna af á meðan sósan sýður.
  2. Sósan þá sigtuð og smökkuð til með salti og ef til vill smá Tabasco.
  3. Sósan hituð aftur upp og smjörið hrært varlega út í stuttu áður en á að bera hana fram.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.