Kínverskur kjúklingur með kasjúhnetum 腰果鸡丁

Home / Kínverskur kjúklingur með kasjúhnetum 腰果鸡丁

Það eru takmörk fyrir því hversu mörg lýsingarorð hægt er að nota þegar fjallað er um mat og hvað þá góðan mat. Ég held ég hafi nokkurn veginn klárað orð eins og dásamlegt, himneskt, snilld, fullkomnun, ólýsanlegt, ómótstæðilegt, fullkomið og mörg, mörg fleiri. Líklega koma þau þó aftur, en vonandi í aðeins minna mæli.
Þannig að hvað get ég sagt um þennan kínverska kasjúhnetukjúkling? Jú hann er góður og það reyndar mjööööög góður. Það sem gerir hann sérstaklega góðan er aðferðin sem notuð er og gerir kjúklinginn óvenju mjúkan og safaríkan. Við erum að tala um algjört leynitrix sem ég hvet ykkur til að prufa. Sósan er fersk og bragðgóð og rétturinn er mildur og hentar því öllum aldurshópum…algjörlega himneskt!

2013-01-10 17.50.16-2
Kínverskur kasjúhnetukjúklingur (腰果鸡丁)
fyrir 4
3 kjúklingabringur, skornar í teninga
100-150 g kasjúhnetur, ósaltaðar
1-2 grænar paprikur (eftir stærð), skornar í teninga
engifer, um 5 cm biti, skorinn í sneiðar
1 laukur, skorinn í litla teninga
vorlaukur (má sleppa)

Marinering:
3 tsk matarsódi
3 tsk sterkja (td. maizenamjöl)
1 1/2 tsk hrísgrjónavín (eða t.d. sherrý/púrtvín)

Sósa:
1 1/2 msk ostrusósa
3 tsk soyasósa
9 msk vatn
1 1/2 tsk sykur
1 1/2 tsk hrísgrjónavín (má sleppa)
1 tsk sesamolía
Smakkið sósuna til með
hvítu pipardufti (um 1-2 tsk)
salti

Ef þið viljð gera réttinn aðeins bragðmeiri má sleppa sykrinum í sósunni og bæta í staðinn smá sweet chillí sósu út í.

Aðferð:

  1. Marinerið kjúklinginn í matarsóda í um 15-20 mínútur. Matarsódinn gerir það að verkum að kjúklingurinn verður mun mýkri en þið eigið að venjast. Skolið hann síðan með vatni og reynið að fjarlægja allan matarsódann. Þerrið kjúklinginn vel með eldhúspappír eða viskustykki.
  2. Blandið saman hrísgrjónavíninu og sterkjunni og hellið yfir kjúklinginn og marinerið í um 15 mínútur.
  3. Blandið hráefnunum sem fara eiga í sósuna saman í skál  og takið til hliðar.
  4. Hitið pönnu (t.d. wok pönnu) með 1 msk af olíu og látið kjúklinginn á pönnuna og steikið þar til hann er orðin ljósbrúnn og næstum því fulleldaður (þó ekki alveg). Takið til hliðar.
  5. Látið nú aftur 1 msk af olíu á pönnuna og steikið paprikuna, laukinn og engiferið þar til þið farið að finna ilminn af paprikunni. Bætið þá kjúklinginum út í.
  6. Hellið því næst sósunni saman við og hrærið stöðugt í blöndunni þar til sósan hefur blandast vel kjúklinginum.
  7. Saltið eftir þörfum.
  8. Bætið hnetunum út í og hrærið nokkrum sinnum.
  9. Setjið í skál og stráið smátt skornum vorlauk yfir. Berið fram með hrísgrjónum.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.