Hér er á ferðinni bragðmikill kjúklingur sem á rætur sínar að rekja til Kína. Snilldin við þennan rétt er að hægt er að leika sér með hráefnin að vild og nýta það grænmeti sem til er í ísskápnum. Endilega smakkið sósuna vel til og bætið chillí maukinu saman smátt og smátt þannig að styrkleiki sósunnar henti ykkur. Mér sjálfri þykir gott að hafa hana bragðmikla, en það hentar ekki alltaf börnunum. Einfaldur, hollur og fljótlegur réttur sem slær í gegn.
Kung pao
Kung pao kjúklingur
500 g kjúklingabringur, skornar í litla bita
grænmeti að eigin vali
Sósan
5 msk hvítvín
5 msk soyasósa
1 msk sesamolía
1 tsk sterkja – leyst upp í 2 msk af vatni
1 – 2 msk chilímauk (chilly paste)
1 msk hrísgrjónaedik (eða hvítvínsedik)
1 – 2 msk púðursykur
4 stilkar vorlaukur, saxaður
1 msk hvítlaukur, saxaður
100 g cashew hnetur eða salthnetur
- Útbúið sósuna með því að blanda saman hvítvíni, soyasósu, sesamolíu, 1 msk af vatnsblandaðri sterkju, 1-2 msk chillí mauk, hrísgrjónaediki og púðusykri. Smakkið sósuna til eftir ykkar smekk. Bætið því næst vorlauk,söxuðum hvítlauk og hnetum saman við sósuna.
- Veltið kjúklinginum lítillega upp úr hveiti og steikið í olíu þar til að kjúklingurinn er orðinn eldaður að utan og smá stökkur. Takið af pönnunni og geymið. Léttsteikið það grænmeti sem þið viljið nota og takið svo til hliðar og geymið.
- Hellið sósunni út á pönnuna og hitið hana þar til að lyktin af henni hefur magnast upp. Bætið þá grænmetinu og kjúklingnum saman við og leyfið að malla við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Bætið vatni út í ef sósan er of þykk að ykkar mati.
Berið þessa dásemd fram með hrísgrjónum.
Nú er GulurRauðurGrænn&salt einnig með vefslóðina grgs.is
Leave a Reply