Ég er svo spennt að fá að deila með ykkur vörum sem eru í algjöru uppáhaldi hjá mér þessa dagana. Þær koma frá danska fyrirtækinu Lakrids by Johan Bülow sem sérhæfir sig í framleiðslu á handgerðum gæðalakkrís.
Algjört nammi!
Johan Bülow stofnaði lakkrísframleiðslufyrirtæki sitt Lakrids by Johan Bülow fyrir 6 árum síðan, þá aðeins 23 ára gamall. Allt frá því að Johan var lítill strákur hafði hann verið heillaður af lakkrísrótinni og var hann sannfærður um að það ætti ekki einungis að nota hana í sætindi heldur einnig í matreiðslu, bakstur og jafnvel í bjór.
Flest okkar tengja lakkrís við ódýrt skandinavískt nammi, en hans sýn var sú að lakkrís gæti orðið partur af “gourmet” upplifun. Núna 6 árum síðan er fyrirtæki hans Lakrids by Johan Bülow sem staðsett er í Bornholm í Danmörku orðið vel þekkt þrátt fyrir að vera líklegast minnsta lakkrísframleiðsla í heimi.
Einnig hefur verið bætt við línu fyrir þá sem vilja geta nýtt sér lakkrísrótina sem bragðefni í matreiðslu og bakstur. Markmið Johan Bülow var að lakkrís ætti að vera aðgengilegur öllum sem ljúffengt bragðefni og hentar þessi lína vel fyrir mataráhugafólk jafnt sem kokka. Lakrids gaf nýverið út matreiðslubók þar sem lakkrís leikur aðalhlutverkið og heitir bókin LAKRIDS I MADEN. Falleg bók með frumlegum og flottum uppskriftum sem engan ætti að svíkja.
Lakrids by Johan Bülow er líklega einn besti lakkrís sem hægt er að finna og er hann aðeins seldur í vel völdum verslunum þar sem gæði og hönnun haldast í hendur. Hér á Íslandi fæst þessi hágæðalakkrís í Epal.
Mikið er lagt upp úr fallegri hönnun og eru allar vörurnar þeirra konfekt fyrir augað. Jólavörurnar í ár eru hreint út sagt dásamlegar og henta vel bæði í aðdraganda jólanna sem og í jólapakkann.
Gylltar jólakúlur – varla að maður tími að borða þær..og þó!
Fallegt – fallegra – fallegast!
Lakkrísmarsipan – næstum því of gott!
Jóladagatal fyrir fullorðna – snilldin ein..
Fallegar gjafaöskjur með jólakúlunum góðu
Við hjá GulurRauðurGrænn&salt ætlum í samstarfi við Epal að skella okkur í gjafaleik á Facebook síðu GulurRauðurGrænn&salt þar sem allir vinir okkar eiga möguleika á að vinna þennan ómótstæðilega lakkrís. Það eina sem þarf að gera er að skrá sig undir Lakrids færsluna og segja okkur af hverju þú ættir að vinna. Á næstu dögum verða svo fimm heppnir vinningshafar dregnir út. Þeir sem ekki eru með Facebook fá að sjálfsögðu einnig að taka þátt og geta þá skráð sig við þessa færslu.
Lakkrískonfekt með hvítu súkkulaði
Þetta er ein af þeim fjölmörgu uppskriftum sem má finna í uppskriftarbókinni frá Lakrids by Johan Bülow og er bæði einföld og fljótleg í gerð.
Gerir um 15 kúlur
100 g hreint marsipan
1/2 tsk kanill
1/2 – 1 tsk lakkrísduft (raw liquorice powder – fæst í Epal)
1 msk sterkt kaffi
150 g hvítt súkkulaði
Skreyting
Lakkrísduft
- Blandið marsipani, kanil, lakkrísdufti og kaffi vel saman. Geymið í kæli í 15-20 mínútur. Mótið 15 kúlur og setjið aftur inn í kæli.
- Brærið súkkulaðið yfir vatnsbaði. Dýfið kúlunum í súkkulaðið og leggið á smjörpappír og stráið smá af lakkrísdufti yfir þær. Geymið í kæliskáp þar til súkkulaðið hefur harðnað. Berið marsipankúlurnar fram kaldar.
Leave a Reply