Það er eitthvað við þennan árstíma sem fær mig til að langa að nota pekanhnetur í alla eldamennsku og bakstur. Ætli ég sé ekki undir Bandarískum áhrifum þar enda þakkagjörðahátíðin ekki langt undan og pekanhnetur mikið notaðar í kringum þann mat hvort sem það er í fyllingu, í sósur eða kökurnar.
Aldrei skulu þessir ofurljúfu pekanhnetubitar klikka en þeir eru einfaldari og fljótlegri útgáfa af pekan pie sem ég hef áður birt uppskrift af og mæli með að þið prufið..líka. Þessir bitar eru næstum of góðir til að vera satt og pínu hættulegir, en okkur líkar það bara vel.
Pekanhnetu góðgæti
Botn
140 g hveiti
45 g púðusykur
1/2 tsk salt
90 g smjör
Pekanhnetukurl
60 g smjör
90 g púðusykur
1 tsk vanilludropar
1 msk rjómi
120 ml hlynsýróp (maple syrup)
100 g pekanhnetur, saxaðar
- Gerið botninn með því að blanda saman hveiti, púðusykri og salti. Myljið síðan smjörið út í og blandið vel saman. Látið í smurt 23 cm ferkantað form, eða í brauðform. Bakið við 175°c í 20 mínútur.
- Gerið því næst pekanhnetukurl með því að bræða fyrst smjörið í potti og bæta síðan púðusykri, vanilludropum, rjóma og hlynsýrópi saman við. Látið blönduna sjóða í eina mínútu og hrærið stanslaust í henni. Bætið að lokum pekanhnetum saman við og hellið síðan blöndunni yfir botninn. Bakið í 18-20 mínútur.
- Takið úr ofni og leyfið að kólna í um 30 mínútur þannig að pekanhnetukurlið nái að harðna.
- Njótið…..ójá þið munið njóta!
Leave a Reply