Einhver sagði góðir hlutir gerast hægt og það á svo sannarlega við í þessu tilfelli. Pitsur er hægt að gera á svo marga vegu og bara spurning hvernig pitsu mann langar í. Það sem gerir þessa pitsu sérstaklega góða er frábær pitsabotn. Ef þið hafið prufað að gera brauðið góða að þá ætti þessi pitsabotn ekki að vefjast fyrir ykkur enda er aðferðin svipuð.
Lykillinn að þessari góðu pitsu er fólginn í botninum og kemur uppskriftin úr bókinni Breads Baker’s Apprentice eftir Peter Reinhart’s. Botn með fjöllum, mjúkur en á sama tíma stökkur. Það einfaldar lífið að geta skellt í pitsadeig kvöldið áður, svo ég tala nú ekki um þegar að þið fáið út úr því eina af betri pitsum sem þið hafið bragðað á.
Mitt uppáhalds álegg eru tómatar í sneiðum, mozzarellaostur, hráskinka, klettasalat, parmesan og jafnvel smá hvítlauksolía, en þið veljið bara ykkar uppáhalds, varist hinsvegar að ofhlaða hana.
Pitsan sem vildi láta nostra við sig
4 1/2 bolli hveiti, kælt
1 3/4 tsk salt
1 tsk þurrger
1/4 bolli ólífuolía
1 3/4 bolli vatn, ískalt
Aðferð
- Látið í hrærivélaskál hveiti, salt og þurrger. Hellið út í olíu og vatn og hnoðið í 5-7 mínútur, þar til deigið er orðið mjúkt og hráefnin hafa blandast vel saman. Deigið á að vera laust á hliðum skálarinnar, ef það klístrar mikið við þær bætið þá aðeins meira hveiti út í deigið þar til það losnar á hliðunum.
- Hellið deiginu á hveitistráð borð og skiptið deiginu í 6 hluta. Setjið smá hveiti á hvern botn og hnoðið í kúlu. Raðið kúlunum á plötu með olíupensluðum smjörpappír. Dreifið smá olíu á kúlurnar og látið síðan plötuna í plastpoka og inní ísskáp yfir nótt.
Ef þið ætlið ekki að nota alla botnana má láta þá hvern fyrir sig í lítinn plastpoka með rennilási og setja í frystinn og geyma í allt að 3 mánuði. Taka þá síðan úr frysti daginn sem þið ætlið að baka þá. - Takið botnana úr ísskápinum 2 tímum áður en þeir eiga að bakast. Leggið á hveitistráð borð, hellið smá ólífuolíu yfir þá og hveiti og þrýstið kúlunum aðeins niður. Penslið með olíu og stráið smá hveiti yfir botnana. Látið plastfilmu lauslega yfir botnana og látið standa í 2 tíma.
- Hitið ofninn á hæsta mögulega hita. Ef þið eigið pitsastein skulu þið láta hann neðst í heitann ofninn amk. 45 mínútum áður en pitsan er gerð. Ef þið eigið ekki pitsastein skulu þið nota ofnplötu en ekki hita hana áður. Hér er pitsaofn einnig góður.
- Látið hveiti á hendur ykkar og teygið úr og mótið botnana í hæfilega stærð.
- Látið líttillega af pitsasósu og álegg af eigin vali, en varist að ofhlaða pitsuna. Ef parmaskinka er valin sem álegg fer hún yfir pitsuna eftir að hún kemur úr ofninum.
- Færið pitsuna á steininn eða látið inní ofninn á ofnplötunni. Bakist í um 8 mínútur í miðjum ofni.
Leave a Reply