Þessa uppskrift fékk ég senda frá einni kunningjakonu sem sagði að hana yrði ég að prufa. Það þurfti sko ekki að pína mig til þess enda féll ég gjörsamlega fyrir hráefnalistanum skötuselur, vínber og sojasósa..naminamm! Meira að segja selleríið sem mér finnst stundum vera yfirgnæfandi gaf í þessari uppskrift frá sér milt og gott bragð og smellpassaði með hinum hráefnunum.
Það tók mig stutta stund að skella í þessa uppskrift sem var sannkallaður veislumatur. Frábær réttur í alla staði og verður klárlega eldaður fljótlega aftur.
Sítrusmarineraður skötuselur með vínberjum
fyrir 4
500 g skötuselur (eða annar hvítur fiskur)
2 sítrónur
1 límóna
2 rauðir laukar
3 stórir stilkar sellerí
3 msk. sojasósa
1 bolli græn vínber
Aðferð
- Skerið skötuselinn frá beininu og marinerið hann í safanum af sítrónunum og límónunni í um klukkustund.
- Saxið laukinn og selleríið smátt og steikið í 1 msk af ólífuolíu þar til það mýkist upp.
- Þegar skötuselurinn hefur marinerast, skerið hann í bita og setjið út á pönnuna. Steikið í 2-3 mínútur.
- Setjið þá sojasósuna og merineringuna út í ásamt vínberjunum og steikið áfram á lágum hita í um 4 mínútur. Borið fram með stökku og góðu salati.
Leave a Reply