Í desember flaug fjölskylda mín til Tælands nánar tiltekið til Bangkok og þaðan var haldið á stað rétt utan við Pattaya (við Jomtien Beach) þar sem við nutum okkur í heilar þrjár vikur. Veðrið var dásamlegt allan tímann eða í kringum 30 gráðurnar og ávallt mild og notaleg gola.
Maturinn var sannkölluð veisla fyrir bragðlaukana og get ég fullyrt að ég hafi sjaldan eða aldrei borðað jafn hollan og góðan mat í desember. Í Tælenskum mat er grænmetið í aðalhlutverki og litagleðin og fegurðin í hámarki.
Bestu veitingastaðirnir eru ekkert endilega þeir sem líta flottast út og í Tælandi getur þú rambað inn á veitingarstað sem er í hrörlegu húsnæði og fengið mat sem er ótrúlega bragðgóður. Besti maturinn sem við fengum var einmitt að stað sem lét lítið fyrir sér fara, með glaðlyndu starfsfólki og framúrskarandi mat. Þar byrjuðum við ávallt daginn áður en við fórum á ströndina og gæddum okkur á réttum eins og pad thai með risarækjum, kjúkling í cashew, kjúklinganúðlusúpu, vorrúllum ofl. góðgæti. Matur á þessum stað kostaði í kringum 2500 krónur samtals fyrir 7 manns með drykkjum. En um leið og farið var á staði með vestrænum mat varð verðið strax umtalsvert hærra.
Jólamaturinn þetta árið!
Uppáhaldið mitt kjúklingur í cashew og dagurinn byrjaði vel!
Kókoshnetuís og risarækjusúpa
Sumir voru orðnir ansi góðir með prjónana
Á ströndinni var hægt að kaupa nammigóðar djúpsteiktar risarækjur, vorrúllur og kjúkling ásamt soðnum maís sem var himneskur á bragðið!
Bestu og safaríkustu ávextir sem ég hef bragðað fengust í Tælandi
Við ferðuðumst jafnframt til eyjunnar Koh Samet sem er sannkölluð Paradís með hvítum sandi og tærum sjó. Á kvöldin var hún lýst upp með lugtum sem héngu í trjánum og gerðu upplifunina enn áhrifameiri.
Á veitingastað í Koh Samet
Sumir voru alveg að njóta lífsins
Skipulagt kaos? Mætti halda að ég hafi verið ráðin til verksins!
Búdda í fjallinu – 130 metra langur úr skíragulli – mikil upplifun að sjá
Hjá þessum var alltaf löng röð en þeir seldu bananapönnukökur með sætri mjólk og súkkulaðisýrópi sem var hreinn unaður!
Hér settumst við stundum eftir ljúfan strandardag og gæddum okkar á heimsins bestu pönnukökum!
Tælendingar eru glaðlynt og vingjarnlegt fólk
Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem til Asíu og það er eitthvað sem verður endurtekið aftur síðar. Að sleppa jólum einstaka sinnum og fá sumarið í desember er ótrúlega notalegt og eftir standa góðar minnningar um skemmtilegt land. Ef þið hafið einhverntíman tækifæri til að fara til Tælands að þá mæli ég með því að þið skellið ykkur.
Að lokum birti ég uppskrift að kjúklingasúpu með hnetusmjöri og rauðu karrý sem er hreinn unaður að borða og ég vona að ykkur þyki hún jafn góð og mér.
Vandræðalega góð kjúklingasúpa með hnetusmjöri og rauðu karrý
1 paprika, skorin í teninga
1 laukur, skorinn í teninga
1 msk engifer, rifið
2 -3 msk rautt karrýmauk (ég notaði Blue dragon red curry paste)
2 dósir kókosmjólk (ég notaði Blue dragon coconut milk)
500 ml kjúklingakraftur (3 kjúklingateningar leystir upp í 500 ml heitu vatni)
2 msk fiskisósa (ég notaði Blue dragon fish sauce)
2 msk púðusykur
2 msk hnetusmjör
1-2 dl grænar baunir, frosnar (má sleppa)
3 kjúklingabringur, skornar í teninga og steiktar á pönnu
1 límóna
Til skrauts
Saxaðar salthnetur
Límónusneiðar
Kóríander
Hrísgrjón, elduð (má nota núðlur)
- Léttsteikið lauk, papriku og bætið engifer saman við.
- Bætið rauðu karrý, kókosmjólk, kjúklingakrafti, fiskisósu, púðusykri, hnetusmjöri og baununum saman við og hrærið vel í. Leyfið súpunni að malla við lágan hita í 45 mínútur eða eftir því sem tíminn leyfir.
- Kreistið safa úr einni límónu út í og bætið einnig kjúklingakjötinu saman við. Smakkið hana til og fyrir þá sem vilja hafa súpuna sterka má bæta 1-2 tsk af minced hot chilli út í.
- Setjið súpuna í skálar og toppið með soðnum hrísgrjónum/núðlum, söxuðum salthnetum, límónusneiðum og jafnvel kóríander.
Leave a Reply