Hér er á ferðinni vinsæll pastaréttur með einni útgáfu af hinni frægu Alfredo sósu. Matarmikill réttur með kjúklingi, sólþurrkuðum tómötum og þistilhjörtum toppað með rjómalagaðri hvítlaukssósu og beikonbitum. Að sjálfsögðu má leika sér með hráefnin og oft bæti ég sveppum saman við. Sósuuppskriftin er vel stór enda misjafnt hversu mikið af sósu fólk kýs með þessum rétti en hana má hinsvegar auðveldlega helminga. Orkumikill og bragðgóður réttur sem smellpassar við vetrarveðrið sem nú geisar úti.
Hráefnin undirbúin
Kjúklingur, þistilhjörtu og sólþurrkaðir tómatar steiktir á pönnu
Spínati bætt saman við
Volá og sósan er tilbúin
Öllu blandað saman og toppað með beikoni og rifnum parmesanosti
Tagliatelle með kjúklingi, beikoni, þistilhjörtum og hvítlaukssósu
350 g tagliatelle, t.d. frá De Checco
4-6 sneiðar beikon, eldað og skorið niður
500 g kjúklingabringur, skornar í bita
salt og pipar
1 krukka SACLA þistilhjörtu, vökvinn síjaður frá og þau söxuð
30 g SACLA sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
150 g spínat, ferskt
Hvítlaukssósan
2 msk ólífuolía
2 msk smjör
4 hvítlauksrif, pressuð
40 g hveiti
360 ml rjómi (eða mjólk)
360 ml kjúklingakraftur (eða soðið vatn og 1 kjúklingateningur)
salt og pipar
100 g parmesan, rifinn
2 tsk ítalskt krydd
1 tsk hvítlauksduft
- Eldið pastað þar til “al dente” hellið vökvanum frá og geymið.
- Steikið kjúklinginn á pönnu og kryddið með salti og pipar. Eldið kjúklinginn í gegn. Bætið þistilhjörtunum og sólþurrkuðu tómötunum saman við og hitið í gegn. Bætið því næst spínati saman við og blandið vel saman við.
- Gerið hvítlaukssósuna með því að bræða smjör og olíu í potti við meðalhita. Bætið hvítlauk út í og hitið í ca. 30 sek en varist að hvítlaukurinn brúnist. Bætið hveitinu saman við, hitið í eina mínútu og hrærið vel á meðan. Bætið rjómanum og kjúklingakraftinum varlega saman við og hrærið vel í blöndunni til að koma í veg fyrir kekki. Kryddið með salti og pipar og leyfið sósunni að malla í um 10 mínútur eða þar til hún hefur náð æskilegri þykkt. Takið þá af hitanum og bætið rifnum parmesan, ítölsku kryddi og hvítlauksdufti saman við.
- Blandið pasta, kjúklingablöndunni og sósunni saman við. Stráið beikonbitum yfir og endið á rifnum parmesanosti.
Leave a Reply