Unaðslegt risotto með smjörsteiktum aspas

Home / Unaðslegt risotto með smjörsteiktum aspas

Helgarmaturinn er nú frekar ljúffengur að þessu sinni en það er dásemdar risotto með smjörsteiktum aspas. Í minningunni er risotto frekar tímafrekur og flókinn réttur, en það á ekki við neina stoð að styðjast hér. Uppskriftin er fljótleg og frábær og mun svo sannarlega slá í gegn hjá öllum sem hana gera. Hér er komin frábær afsökun til að hóa í góða saman gott fólk.
Með þessum rétti bar ég fram nýja uppáhalds hvítvínið mitt sem heitir Domaine Malandes Petit Chablis – hvorki meira né minna. Litlar Chablis-flöskur (petit þýðir lítill) geta verið algjört happadrætti. Á góðum árum frá góðum framleiðendum geta þær verið afar ljúffengar sem á svo sannarlega við í þessu tilfelli en hér er á ferðinni frábært hvítvín. Í munni er það þurrt með góða sýru og hentar vel með allskonar fiskmeti, humri, ljósu kjöti, forréttum nú eða bara eitt og sér. Fæst í verslunum ATVR á frábæru verði. Njótið vel kæru vinir.

 

 

Uppskrift að góðu kvöldi

 

Unaðslegt risotto með smjörsteikum aspas
1 laukur, smátt saxaður
2-3 hvítlauksrif, söxuð
1 búnt aspas, ferskur
1 tsk grænt pestó
150 g arbori (risotto hrísgrjón)
1 l grænmetissoð
1 fullt hvítvínsglas
handfylli rifinn parmesanostur
1 msk smjör
salt og pipar
steinselja

  1. Setjið smjör eða olíu í pott og steikið lauk og hvítlauk. Hellið því næst hrísgrjónum saman við og því næst hvítvíni. Saltið lítillega.
  2. Lækkið hitann og hellið smá af grænmetissoðinu saman við og hrærið reglulega í blöndunni. Þegar hrísgrjónin hafa tekið í sig allt soðið hellið meira soði og endurtakið þar til allt soðið er búið. Í heildina ætti risottoið að sjóða í um 20 mínútur.
  3. Setjið smjör á pönnu og léttsteikið aspasinn og skerið síðan í bita. Þegar hrísgrjónin eru búin að sjóða í um 13 mínútur bætið þá aspasinum saman við hrísgrjónin og sjóða með hrísgrjónunum síðustu mínúturnar.
  4. Þegar hrísgrjónin eru að fara að verða fullsoðin bætið parmesan ostinum saman við.
  5. Bætið að lokum smjöri og pestó saman við og smakkið til með salti og pipar.
  6. Stráið parmesan og steinselju yfir allt og njótið vel.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.