Það er fátt betra yfir vetrartímann en að fá sér góðan pottrétt. Stifado er grískur pottréttur sem inniheldur yfirleitt nauta- eða lambakjöt er orðinn ómissandi á heimilinu á þessum tíma. Hann er með mildum kryddum eins og kanil, múskati og rósmarín sem vinna vel saman og gefa réttinum einstaklega gott bragð. Eftir góðan tíma í ofni er kjötið lungnamjúkt og ljúffengt. Pottrétturinn er jafnvel enn betri daginn eftir þegar kjötið hefur fengið að liggja í góðan tíma í kryddblöndunni. Stifado hentar öllum aldurshópum og fellur sérstaklega vel í kramið hjá yngstu kynslóðinni.
Grískt Stifado
1 kg nauta- eða lambakjöt, skorið í teninga
500 g skarlottulaukar
1 stór laukur, skorinn smátt
1 stór mjúkur tómatur, niðurskorinn
170 g tómat púrra
1/2 tsk múskat
1 kanilstöng og 1 tsk kanill
4 hvítlauksrif, söxuð
1-2 grænmetisteningar
2 lárviðarlauf
2 stiklar rósmarín
1 lítið vínglas ólífuolía
1 glas rauðvín eða hvítvín
2 msk rauðvínsedik
salt og pipar
Aðferð
- Látið nautakjötið á stóra pönnu eða pott og eldið við háan hita. Hrærið reglulega í þar til kjötið hefur verið brúnað á öllum hliðum.
- Bætið út í ólífuolíunni, saxaða lauknum og hvítlauknum og steikið þetta í um 5 mínútur.
- Bætið út í víni og rauðvínsediki. Látið lok yfir og sjóðið í um 5 mínútur.
- Bætið því næst múskati, lárviðarlaufum, grænmetistening, kanil og kanilstöng, rósmarín stiklunum og slatta af svörtum pipar. Hrærið þessu saman við meðalhita og smakkið til með salti.
- Látið því næst tómatinn og tómat púrru í pottinn/pönnuna.
- Hellið þessu öllu út í pott eða fat með loki sem má fara í ofn. Bætið út í 750 ml af vatni og setjið inní 200°c heitan ofn.
- Afhýðið skarlottulaukinn og steikið í smá olíu þar til mjúkur, en passið að þeir brenni ekki (eins og gerðist reyndar hjá mér).
- Bætið þeim út í pottréttinn og látið malla í ofni í amk. klukkutíma (eða 2-3). Bætið útí vatni ef þarf. Takið lokið af pottinum síðustu 20 mínúturnar og eldið þar til sósan hefur þykknað (gott að opna ofninn lítillega á meðan).
- Gott að bera fram með cous cous og grísku salati eða góðu brauði sem maður dýfir í sósuna.
Leave a Reply