Það eru réttir eins og þessir sem veita mér mesta ánægju í eldamennskunni. Réttir sem eru svona fallegir á litinn, gaman að meðhöndla og lykta eins og sumarið. Þessi gómsæti kjúklingaréttur er sumarið! Hann er súperhollur, það tekur enga stund að útbúa hann og hann rennur sérstaklega ljúflega niður með kældu hvítvíni. Gleðilegt sumar..aftur!
Sólskinskjúklingur
1/4 bolli ólífuolía
4 hvítlauksrif, fínt söxuð
2 msk sykur
2 sítrónur, safi úr annarri en hin skorin í sneiðar
2 appelsínur, safi úr annarri en hin skorin í sneiðar
1 msk ítalskt krydd
1/2 tsk paprika
1 tsk laukduft (onion powder)
1/4 tsk muldar chiliflögur
salt og pipar
10-12 kjúklingabitar (t.d. læri og leggir)
1 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
1 tsk þurrkað timian
1 msk þurrkað rósmarín
Aðferð
- Hrærið saman olíu, sykri, hvítlauk, sítrónusafa, appelsínusafa, ítölsku kryddi, paprikukryddi, laukdufti og chiliflögum. Smakkið til með salti og pipar.
- Raðið kjúklingabitunum í ofnfast mót og hellið olíuleginum yfir. Raðið lauknum, appelsínu- og sítrónusneiðum víðsvegar um fatið og endið á því að strá timían og rósmarín yfir allt. Saltið og piprið.
- Bakið í ofni við 200°c í um 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.
Berið fram með t.d. góðu salati, jógúrtsósu og couscous..eða bara því sem hugurinn girnist. Verði ykkur að góðu!
Leave a Reply