Þetta er ísinn sem þið viljið vera að borða og bjóða upp á í sumar. Milt mangóbragð og fersk berjasósa gera þennan krapís gjörsamlega ómótstæðilegan. Hann er ofureinfaldur í gerð en gott að vinna sér hann í haginn áður en hans er notið, þar sem að hann þarf sinn frystitíma. Skellið í þennan og njótið!
Mangó krapís með brómberjasultu
4 stór mangó, fullþroskuð
300 g sykur
4-5 límónur (um 100 ml af límónusafa)
100 g frosin brómber (eða ber að eigin vali)
1 eggjahvíta (má sleppa)
Aðferð
- Látið 225 g af sykrinum í pott ásamt 250 ml af köldu vatni og hitið við vægan hita og hrærið af og til í blöndunni þar til sykurinn er uppleystur.
- Skerið mangóin niður í bita og látið í matvinnsluvél ásamt límónusafanum og maukið vel. Bætið þá kældri sykurblöndunni saman við og blandið saman í matvinnsluvélinni.
- Látið plastfilmu í 2 lítra form og hellið ísblöndunni í formið. Látið í frysti í amk. 6 klukkustundir.
- Látið berin í pott ásamt afganginum af sykrinum (75g) og 1 msk af vatni. Hitið varlega þar til berin eru orðin mjög mjúk.
- Setjið berin í sigti og merjið þau í gegnum sigtið. Hendið því sem ekki fer í gegn. Kælið berjamaukið.
- Þegar mangoísinn er frosinn takið hann úr frysti og skerið í bita. Látið þá síðan í matvinnsluvél og setjið vélina á “pulse” þar til mangoísinn er orðinn mjúkur og þéttur í sér. Þetta gæti tekið nokkrar mínútur. Bætið nú eggjahvítunni út í.
- Hellið helmingi af mangóísnum í formið. Hrærið í berjasósunni og hellið helmingnum af henni yfir ísinn. Látið því næst afganginn af ísnum í formið og hellið síðan berjasósunni yfir. Frystið í aðra 6 tíma.
- Takið ísinn úr frysti 10 mínútum áður en þið berið hann fram. Ísinn geymist í 1 mánuð í frysti.
Leave a Reply