Grillað Kofta með guðdómlegri tzatziki sósu og flatbrauði

Home / Brauð & samlokur / Grillað Kofta með guðdómlegri tzatziki sósu og flatbrauði

Það er vel við hæfi að nota þessa síðustu daga sumarsins í að grilla eins og enginn sé morgundagurinn. Þessi réttur, sem að hluta til kemur frá skemmtilegu matarbloggi sem kallast The Kitchn sló allhressilega í gegn á mínu heimili enda hrein dásemd. Uppskriftin er einföld og fljótleg og jafnvel flatbrauðið sem er án gers er ofureinfalt í gerð. Kofta, tzatziki sósan og flatbrauðið passa svo ótrúlega vel saman að úr verður veisla fyrir bragðlaukana. Á mínu heimili hef ég verið beðin um að hafa þennan rétt á hverjum degi og væri alveg til í það.

IMG_3634

IMG_3653

IMG_3663

IMG_3666

IMG_3680

IMG_3681

 

Grillað Kofta með tzatziki sósu og flatbrauði
Fyrir 4

Tzatziki sósa
1 agúrka
1 ½ tsk sjávarsalt
2 sítrónur
½ hvítlauksrif
350 g grísk jógúrt
lítið búnt ferskt dill*
lítið búnt fersk mynta*
2 msk ólífuolía
½ tsk Pipar

  1. Rífið agúrkuna í gegnum stóru götin á rifjárni eða saxið smátt.  Setjið í skál og blandið ½ tsk af salti saman við. Látið bíða í 15 mínútur (…ish).
  2. Fínrífið 1 msk af sítrónuberki og setjið í skál. Kreystið safann úr hálfri sítrónu í skálina.
  3. Fínrífið hvítlaukinn og bætið saman við sítrónusafann og börkinn. Saxið dill og myntu smátt og bætið út í skálina. Bætið grískri jógúrt, olíu, 1 tsk af salti og ½ tsk af pipar saman við.
  4. Kreistið safann úr agúrkunni og bætið henni saman við jógúrtblönduna. Geymið í kæli þar til maturinn er tilbúinn.

*Ferskar kryddjurtir á Íslandi kosta oft ansi mikið, þar að segja í þeim tilfellum sem þær eru til í verslunum. Ég hef gert þessa sósu án þess að nota dill og myntu eða notað bara annaðhvort, bæði gengur. Einnig er sniðugt að geyma smá afgang af myntunni sem notuð er í uppskriftina af Kofta svo þið þurfið ekki að kaupa annan pakka fyrir sósuna. 

Grillað Kofta
½ laukur
2 cm engifer
2 hvítlauksrif
1 lítið búnt fersk steinselja
1 búnt fersk mynta
600 g nauta eða lambahakk
1 ½ tsk sjávarsalt
1 msk cumin (ath. ekki kúmin)
1 tsk kóríanderkrydd
½ tsk kanill
½ tsk negull
hnífsoddur rauðar piparflögur

  1. Látið grillpinna í vatn í um 20-30 mínútur til að koma í veg fyrir að þeir brenni (ef þið skoðið myndirnar vandlega þá sjáið þið að þetta er ekki styrkleiki minn. Semsagt ekki gera eins og ég!!!)
  2. Setjið lauk, engifer og hvítlauk saman í matvinnsluvél eða saxið smátt. Blandið því næst öllum hráefnunum vel saman í skál. Mótið hakkið í bollur eða hafið þær örlítið ílangar á grillpinnunum, það er kannski einfaldara að grilla þær ef þær eru aðeins ílangar. Setjið í ísskáp í um 20 mínútur (aftur ekki minn styrkleiki að bíða og á góðum degi ná þær max 10 mínútum. Gerið eins og ég!).
  3. Penslið grillteina með smá olíu og grillið bollurnar í 3-5 mínútur á hvorri hlið eða þar til þær hafa eldast alveg í gegn og eru með fallega dökkum röndum á einstaka stöðum.

 

Flatbrauð án gers
300 g hveiti
½ tsk sjávarsalt
50 g smjör
185 g mjólk
½ tsk olía

  1. Blandið smjöri og mjólk saman og hitið þar til smjörið er næstum bráðið.
  2. Bætið hveiti, salti, smjöri og mjólk saman við. Hnoðið saman. Geymið í skál með plastfilmu yfir í um 30 mínútur.
  3. Skiptið deiginu í 5-6 hluta og fletjið út, notið hveiti eftir þörfum. Gott að hafa brauðin í þynnri kantinum og ílöng.
  4. Steikið á olíusmurðri pönnu eða grillið. Vefjið elduðu brauðunum í viskastykki og geymið þar til þær eru bornar fram.

Leave your comment to Cancel Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.