Jólamúslíið hennar Bergþóru með pekanhnetum og súkkulaði. Hin fullkomna matarjólagjöf

Home / Gestabloggarinn / Jólamúslíið hennar Bergþóru með pekanhnetum og súkkulaði. Hin fullkomna matarjólagjöf

Ég þreytist ekki á að tala um það hvað ég er þakklát fyrir uppskriftirnar sem koma frá ykkur kæru lesendur. Þið gerið GulurRauðurGrænn&salt –  það er bara þannig!

Ég rakst á þessa uppskrift að dásamlegu jólamúslíi með pekanhnetum og súkkulaði á Instagram hjá henni Bergþóru og blikkaði hana til að gefa okkur uppskriftina. Það þótti henni lítið mál og lét þessi fallegu orð fylgja með. Sendum henni kærar þakkir og fallegar hugsanir. Njótið vel!

 

Falleg og jólaleg mæðgin!

Ég heiti Bergþóra Guðnadóttir og er 39 ára, móðir, hjúkrunarfræðingur og áhugakokkur. Ég hef fylgst vel með GulurRauðurGrænn&salt frá upphafi og nýtt mér ýmislegt þaðan. Sumar konur prjóna og finnst það róandi. Ég skoða uppskriftir og þykir það róandi.

Ég varð fyrir því óláni að missa heilsuna fyrir tæpum tveimur árum og hef verið í endurhæfingu síðan sem stendur enn yfir. Oft þykir mér erfitt að sjá hvar ég er stödd í batanum, hvaða árangri ég er að ná og hvort styrkurinn sé að aukast.

Einn mælikvarðinn er að mínu mati hvernig mér gengur að elda og baka, þið vitið…sinna þessum hefðbundnu eldhússtörfum. Fyrir ári síðan gat ég ekki bakað fyrir jólin og rétt hafði það að elda jólamatinn. Gat ekki staðið við eldavélina nema í stutta stund í einu og alls ekki beygt mig niður í ofninn. En núna fyrir þessi jól hef ég náð því að baka nokkrar sortir og vona að ég geti nostrað svolítið við jólamatinn í ár og virkilega notið þess að elda. Það á jú að vera gaman að elda!

Ég þreytist ekki á að predika fyrir börnunum mínum hvað trefjar skipta miklu máli í daglegri fæðu. Bættu smá trefjum í daginn og maginn þinn mun þakka þér.

Þetta dásamlega jólamúslí er stútfullt af trefjum en ég leyfði mér líka að hafa það soldið djúsí enda jóla jóla. Hlutföllin eru ekki heilög – endilega leikið ykkur!

 

Jólamúslí
3 bollar haframjöl
3 bollar pekanhentur, möndlur og sólblómafræ, blandað saman
1 bolli þurrkaðar apríkósur
1 bolli rúsínur
1 bolli kókosflögur
1 bolli Kornflex
ólífuolía
sjávarsalt
hlynsíróp
kanill
súkkulaðispænir

Blandið haframjöli, hnetum og fræjum, apríkósum, rúsínum, kókosflögum og Kornflexi saman í skál. Bætið smá ólífuolíu, sjávarsalti, hlynsírópi og kanil saman við. Magn eftir smekk.

Dreifið vel úr þessu á bökunarpappír í ofnskúffu. Setjið í 170°c heitan ofn í 20 mínútur eða þar til þetta hefur fengið gylltan blæ. Gott er að hræra í blöndunni af og til á meðan.
Þegar þetta er tilbúið og orðið kalt helli ég súkkulaðispæni saman við og blanda vel saman. Þetta er frábært út á ab mjólk.

Gleðileg jól!

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.