Efstidalur II – veitingastaður í fjósi

Home / Efstidalur II – veitingastaður í fjósi

Nú eru margir að detta í sumarfrí ef ekki byrjaðir nú þegar og stefna á að ferðast innanlands í fríinu. Mig langar að segja ykkur frá skemmtilegum veitingastað sem ég heimsótti á dögunum. Staðurinn kallast Efstidalur II en það eru hjónin Björg Ingvarsdóttir og Snæbjörn Sigurðsson sem eru eigendur hans. Efstidalur II er staðsettur um 12 km frá Laugavatni og þar má finna bæði gistiheimili, kaffihús og veitingastað.

IMG_0038
Veitingastaðurinn Hlöðuloft, Efstadal II 

Það sem gerir þennan stað einstakan er hinsvegar að staðurinn er staðsettur í fjósi, þannig að meðan veitinganna er notið má sjá beljur hinu megin við glervegg, mörgum til mikils yndisauka.

Efstidalur er á tveimur hæðum. Á fyrstu hæðinni er Íshlaðan, kaffihús þar sem hægt er að setjast niður og gæða sér á heimagerðum vöfflum, kökum og einum besta heimagerða ís á landinu….ummmmm. Ekki láta hann fram hjá ykkur fara.

IMG_0104

Silungurinn fær fullt hús stiga

 

IMG_0078

Hamborgarar úr hágæða nautakjöti beint af býli

Á efri hæðinni er veitingastaðurinn Hlöðuloft, en þar má eiga notalega kvöldstund í heimilislegu umhverfi. Maturinn er unninn úr ferskasta hráefni hverju sinni og á matseðlinum má meðal annars finna súpu dagsins, nauta carpaccio með pestó, birkireykta bleikju að hætti Elsu og Skúla í Útey með heimagerðri wasabisósu, steikarsamlokur, surf and turf hamborgara og nautasteik beint frá býli. Ég átti erfitt með að velja úr öllum þessum girnilegu réttum en endaði á að panta mér bleikju og varð ekki fyrir vonbrigðum, ein sú allra besta sem ég hef bragðað hingað til.

IMG_0154

Heillandi sveitaumhverfi 

Efstidalur II er fjölskylduvænn og heillandi staður sem gaman er að koma á. Staðurinn er í um klukkutíma keyrslu frá Reykjavík og því auðvelt að gera sér dagamun og kíkja í heimsókn. Fyrir okkur var þetta virkilega ánægjuleg heimsókn og allir alsælir. Ég mæli með því að þið gerið ykkur ferð þangað, gæðið ykkur á öllu því besta sem veitingastaðurinn hefur upp á að bjóða um leið og þið horfið á fallegu kýrnar í fjósinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.