Foccacia er eitt af mínum uppáhalds. Þetta er brauð sem þarf að gefa sér tíma fyrir og nostra við en verðlaunin eru mikil og þarna verður til listaverk í höndunum á manni. Annað sem ég er svo hrifin af við foccacia er að þú getur látið brauðið ganga milli borðgesta og allir rífa sinn hluta. Það er eitthvað svo fallegt við það að vera í tengslum við matinn með snertingu og hvíla aðeins hnífapörin…sem minnir mig á að ég hef alltaf verið á leiðinni að halda matarboð þar sem borðað er með puttunum..össssss, kannski ekki fyrir hvern sem er, en klárlega á möst do listanum mínum…en meira um það síðar.
Í þessari uppskrift notast ég við vínber, rósmarín og sjávarsalt á brauðið, en vínberin gefa brauðinu ákveðinn ferskleika. Hægt er að notast við hvers konar ber eins og t.d. bláber og hindber nú eða hafa brauðið hefðbundnara og nota pestó, hvítlauk, ólífur og fleira. Aðalatriðið er að þið séuð að hafa gaman að þessu!
Foccacia með vínberjum
3/4 bolli heitt vatn
2 msk köld mjólk
1 1/2 tsk sykur
1 1/4 tsk þurrger
2 bollar hveiti
1 tsk sjávarsalt
6 msk ólífuolía
1 1/2 bolli vínber, skorin í tvennt
1 tsk ferskt rósmarín, saxað
2 msk sykur
2 tsk sjávarsalt
- Látið í hrærivél (með hnoðara) vatn, mjólk, sykur og ger. Látið blönduna hvíla í um 10 mínútur eða þar til hún er farin að freyða. Bætið þá útí hveiti, salti og 2 msk af ólífuolíunni og hrærið saman á litlum hraða í smá stund. Aukið hraðan í meðalhraða í um 8 mínútur.
- Penslið stóra skál með ólíuolíu. Látið deigið í skálina með olíubornum spaða og nuddið olíunni léttilega á deigið. Látið plasfilmu yfir skálina og geymið í um 1 1/2 – 2 tíma.
- Þegar deigið hefur tvöfaldað sig í stærð skulu þið bera olíu á hendurnar hnoða deigið og skipta því síðan í tvo hluta. Penslið bökunarplötu með olíu, látið deigið á plötuna og penslið með olíu. Látið bíða í um 20 mínútur undir viskustykki.
- Dýfið nú fingrunum í ólífuolíu og teygið deigið og mótið í rétta lögun. Breiðið aftur yfir það með viskustykki og látið hefast í um 1 1/4 klukkustund.
- Hitið ofninn á 220°c. Penslið deigið með olíu og látið yfir vínber, rósmarín, sykur og salti.6. Bakið í um 15 mínútur eða þar til skorpan er gullinn. Kælið örlítið áður en þið berið brauðið á borð.
Leave a Reply