Léttara carbonara

Home / Léttara carbonara

Það er svo viðeigandi að næsti gestabloggari síðunnar sé góð vinkona mín hún Katrín Helga Hallgrímsdóttir. Við höfum þekkst frá því í grunnskóla og höfum ásamt nokkrum öðrum stelpum haldið þessum vinskap í öll þessi ár.
Óhætt  er að segja að Eurovision sé rauði þráðurinn í þeirri vináttu. Við höfum fylgst spenntar með keppninni á hverju ári, hermt eftir og hlegið að atriðum eins og þessu  sem eru oft út úr þessum heimi fáránleg en um leið svo dásamleg í fáránleika sínum. Þetta er einmitt bjútíið við Eurovision, gleðin, grínið, samveran, maturinn og svo einstaka sinnum nokkur lög sem eiga virkilega skilið að vinna. Þjóðarstoltið gerir ávallt vart við sig og hópurinn spáir yfirleitt Íslandi í fimmta sæti eða ofar. Í ár verður engin breyting þar ár..skítt með það hvort að það standist eða ekki, við stöndum með okkar fólki.

Árið 2010 var árið þar sem við ákváðum að láta verða að því og skella okkur á Eurovision. Sú keppni var haldin í Osló í sól og sumaryl. Við vissum ekkert hverju við áttum von á og fyrirfram fannst okkur þetta árið öll lögin “óeðlilega” slök. En það var nú ekki að fara að skemma ferðina og reyndar ekki heldur sú staðreynd að við fengum ekki einu sinni miða á keppnina sjálfa heldur bara á generalprufuna fyrr um daginn (já já nú getið þið bilast úr hlátri).

Til að gera langa sögu stutta að þá var þetta hreint ólýsanlegt í alla staði, stemmningin í höllinni, atriðin frábær, næstum ÖLL lögin góð og óendanlega skemmtilegt að hafa látið verða að þessu. Þannig að ef þið eruð eitthvað að velta þessu fyrir ykkur að þá segi ég bara GO FOR IT!

euro1

Hejjja Norge!
euro

Áfram hver??

euro3

Allur tilfinningaskalinn tekinn í höllinni!

Þegar þetta er skrifað er ég á leið að hitta þennan góða vinkonukjarna..borða góðan mat, horfa á Eurovision, hlægja og njóta..heppin ég! En það var einmitt í matarboði hjá henni Katrínu sem ég fékk þennan ótrúlega góða pastarétt. Það blasti við, hún varð sjálfskipaður gestabloggari með þessa dásamlega bragðgóðu en um leið ofureinföldu uppskrift af spaghetti carbonara. Ég læt hér staðar numið og gef henni orðið.

Katrín Helga – Spaghetti carbonara
Ég man það eins og það hefði gerst í gær þegar ég fékk spaghetti carbonara í fyrsta skipti. Ég bjó þá í París, 10 ára – árið var 1987; önnur eins frumlegheit höfðu aldrei sést á mínu heimili. Þetta var lengi vel eitt það besta sem ég vissi um, fór hins vegar lítið fyrir þessu eftir að ég flutti heim aftur. Þar sem strákurinn minn er með ofnæmi fyrir eggjum fer enn minna fyrir þessu á mínu heimili þessa dagana og nota ég því öll tækifæri á veitingastöðum til að panta mér spaghetti carbonara. Svo er það við hátíðleg tækifæri eins og barnlaus matarboð sem ég læt það eftir mér að kaupa egg og skella í eitt carbonara. Hér kemur einföld uppskrift með frönsku ívafi.

2013-05-15 17.58.51


Spaghetti carbonara

1 laukur
2 hvítlauksrif
Dass af hvítvíni (ef vill)
2 pakkar beikon
100 gr parmesan
3 egg
1 dós sýrður rjómi (18%) (flestar íslenskar uppskriftir hafa matreiðslurjóma en sýrður rjómi finnst mér nær því að vera créme fraiche eins og þeir notuðu í París)
Múskat (ef vill)

Aðferð

  1. Steikið lauk og hvítlauk á pönnu, leyfið að malla í hvítvíni í smá stund. Steikið svo beikonið á pönnunni.
  2. Sjóðið pasta.
  3. Hrærið egg, sýrðan rjóma og parmesan saman í skál og bætið við pipar og kannski smá múskat, salt ef menn vilja (beikonið er oft nægilega salt). Hellið svo eggjahrærunni út á pönnuna og hitið í stutta stund (passa að sjóði ekki á þessu).
  4. Hellið öllu mixinu yfir pastað og voilá!

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.