Gestabloggarinn Steinlaug Högnadóttir í Víetnam

Home / Gestabloggarinn Steinlaug Högnadóttir í Víetnam

Ég held ég geti ekki verið mikið spenntari að kynna til leiks næsta matgæðing og gestabloggara, en það er hún Steinlaug Högnadóttir lögfræðinemi sem að þessu sinni fær þetta hlutverk. Hún gerir reyndar gott um betur og deilir með okkur matartengdri ferðasögu sinni um Víetnam sem hún ferðaðist um á síðasta ári. Steinlaug sendi mér fullt af myndum og ég varð gjörsamlega heilluð af myndunum af fólkinu, stemmingunni og stórkostlegri matarmenningu víetnama. Við erum að tala um ferðalag sem er klárlega eitthvað til að stefna að síðar meir.
Þessi færsla er óvenjulöng enda gat ég varla valið úr myndunum því eru þær allar dásamlegar, áhugaverðar, fræðandi, veita innblástur og leyfa okkur að njóta þessarar mögnuðu upplifunar sem þetta ferðalag hefur verið. Ég læt hér staðar numið, gef Steinlaugu orðið og vona að þið njótið.

Bun bo nam bo
Ég og Védís vinkona eyddum öllum nóvember mánuði í Víetnam, en áður höfðum við verið í Tælandi, Kambódíu og Laos. Við ferðuðumst lengst frá Phu Quoc, eyju í suðri, og upp til höfuðborgarinnar Hanoi í norðri og stoppuðum mjög oft á leiðinni. Kosturinn við að vera svona lengi í einu landi er hversu vel maður kynnist hefðum og menningu landsins.

vietnam-map

Fyrstu almennilegu kynnin okkar af víetnamskri matarmenningu var á Mekong Delta svæðinu, þar sem við heimsóttum fljótandi markað. Markaðirnir byrja eldsnemma á morgnana.. eiginlega um miðja nótt! Bátar eru út um allar trissur á Mekong ánni seljandi ferskt grænmeti, ískaffi, núðlusúpur osfrv. Við keyptum okkur niðurskorinn ferskan ananas í morgunmat og ískaffi.

fljotandi markaður

Fljótandi markaður

ananas
Við keyptum ferskan ananas í morgunmat af þessum snillingi
á fljótandi markaðnum 

steinlaugÞessi mynd er tekin Nha Trang en þessi kona gekk allan daginn um ströndina, bauð humar til sölu og grillaði hann svo beint fyrir framan mann.

Þar sem ég varð yfir mig hrifin af matarmenningunni festi ég kaup á matreiðslubók (nú uppáhalds matreiðslubókin mín) sem heitir “Hanoi street food – cooking & travelling in Vietnam” eftir belgann Tom Vandenberghe, en hann hefur skrifað sambærilega bók um Bangkok og tælenska matargerð. Bókin er þannig uppbyggð að fremst er kort af helstu matarhverfum Hanoi, og hvar er best að borða – hér þarf að hafa í huga að “Best places to eat” í Víetnam eru ekki michelin staðir með hvítum dúkum, heldur litlu götubásarnir, þar sem setið er á plaststólum í barnastærð úti á gangstétt þar sem vespur og bílar bruna framhjá á fullri ferð. Inní bókinni er svo að finna sögur af ferðum Tom um Víetnam og tengir hann allar sögurnar sínar við rétti sem hann hefur smakkað víðsvegar um landið. Hann gefur upp uppskriftir af þessum réttum, og bendir á hvar er hægt að fá þennan tiltekna rétt.

steinlaug6

Klárlega einn af uppáhalds – rétturinn heitir Nom Thit bo Kho –
“Green papaya salad with dried beef”

steinlaug8

Védís að njóta papayasalatsins

Þessi bók lagði grunninn að matarupplifun okkar vinkvennanna þennan mánuðinn. Maturinn sem við borðuðum var fallegur, góður, litríkur, næringaríkur og ferskur. Uppáhaldið mitt við víetnamska matarmenningu er nálægðin við matinn – maður situr á litlum plaststól og horfir á konuna (það sést aldrei til karlmanns elda á götubás, í Laos boðar það m.a.s. ólukku ef karlmenn koma nálægt slátrun og meðhöndlun kjöts), kokka upp dýrindis réttum með svo fersku hráefni og fullt af ferskum kryddjurtum (það sem ég sakna mest eru allar kryddjurtirnar). Maður getur alltaf treyst á það að hráefnið sé ferskt, þar sem götubásar hafa enga aðstöðu til að kæla matinn, og því fara konurnar oft þrisvar á markaðinn yfir daginn til að sinna eftirspurn.

steinlaug3

Þetta götueldhús telst stórt á víetnamskan mælikvarða, vanalega er bara
ein kona með lítinn vagn sem selur einn til þrjá rétti

steinlaug2

Ég að díla við uppáhalds Banh Goi konuna okkar

steinlaug5

Morgunmaturinn okkar var oftast Pho, víetnömsk núðlusúpa með nautakjöti
og grænt te.

Á meðan við vorum í Hanoi eignuðumst við uppáhalds götubás, þar sem var einungis eldað Banh Goi sem er útskýrt í bókinni sem “deep-fried snack with a filling of transparent noodles and mushrooms”. Við borðuðum þar þrisvar á þeim stutta tíma sem við eyddum í Hanoi.

steinlaug7

Frúin að elda

steinlaug10Banh Goi – maður dýfir djúpsteikta koddanum ofan í ediksósuna
sem er þarna við hliðiná og hámar í sig með ferskum jurtum

Það er líka skemmtilegt við víetnamska matargerð að hún sækir að vissu marki innblástur af franskri matargerð – ég smakkaði t.d. Kem Caramel (þeirra útgáfa af Creme Caramel, sem er með kókosmjólk) og rakst líka á víetnamska útgáfu af boeuf bourguignon, með hrísgrjónavíni í stað rauðvíns. Staðurinn sem bauð uppá þetta er í eigu tveggja fjölskyldna og er aðeins boðið upp á þennan eina disk. Önnur fjölskyldan rekur staðinn frá morguns til kl. 3 á daginn, og hin tekur þá við – alltaf sami rétturinn, en borinn fram mismunandi eftir smekk fjölskyldunnar. Annað sem sækir innblástur sinn frá Frakklandi eru samlokur sem hægt er að kaupa á hverju götuhorni, úr baquette brauði fyllt með paté, heimatilbúnum skinkum, ferskum kryddjurtum og sultuðu grænmeti.

Rétturinn sem ég læt fylgja með  heitir Bun bo nam bo og er suður-víetnamskur réttur. Ég smakkaði hann á Ho Chi Minh í suður-Víetnam á stað sem heitir “Pho 2000 for president” en staðurinn dregur nafnið sitt af heimsókn Bill Clintons á staðinn árið 2000 (http://www.noodlesoup.asia/Pho_2000).

beef steinlaug


Hrísgrjónanúðlur með nautakjöti
400 g nautakjöt, skorið í strimla
2 stilkar lemongrass, saxað (aðeins hvíti parturinn)
2 hvítlauksrif, pressuð
2 msk fiskisósa
2 msk grænmetisolía
1 laukur, skorinn í þunna hringi
1/2 tsk hvítur pipar
1/4 tsk salt
200 g hrísgrjónanúðlur, soðnar í 4-5 mínútur og skolaðar með köldu vatni

Til skreytingar
Stökk salatblöð
Ferskar kryddjurtir (kóríander, thailensk basil)
2 msk ristaðar salthnetur, gróflega saxaðar
2 msk djúpsteikur skarlottulaukur
2 msk nuoc cham dressing

Nuoc cham dressing
1 chilli
1 hvítlauksrif
3 msk. sykur
125 ml. vatn
1 msk hrísgrjónaedik
5 msk. fiskisósa
2-3 msk. lime safi.
Chilli og hvítlaukur marinn saman í mortel. Sykri bætt við og kramið vel, þar sykurinn hefur dregið í sig rauða litinn frá chillinu. Sjóða vatnið og bæta 1 msk. af ediki úti og chilli-hvítlauks-sykur blönduna. Bæta 5 msk. fiskisósu við og leyfa þessu að sjóða niður. Taka af hitanum og smakka til með lime safanum.

Aðferð

  1. Marinerið nautakjötið í 30 mínútur ásamt helmingnum af lemongrass, helming af hvítlauknum og 2 msk af fiskisósu.
  2. Látið 2 msk af olíu á wok pönnu, lauknum, afganginum af hvítlauknum og lemongrass. Léttsteikið nautakjötið í nokkrar mínútur. Saltið og piprið.
  3. Látið hnefafylli af salatblöðum og kryddjurtum í hverja skál og núðlur síðan ofaná það. Látið síðan nautakjöt yfir núðlunar.
  4. Stáið salthnetum og djúpsteikta lauknum yfir þetta og endið á að láta smá nuoc cham dressingu.
  5. Borið fram heitt.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.