Ég hreinlega elska góðar hafraklatta og finnst ég einhvernveginn ná bakstri og hollustu í einu þegar ég geri þá. Auðvitað eru uppskriftirnar mishollar, nú eða góðar en þessi er í hollara lagi og bragðið er dásamlegt. Í þeim er ekki hveiti heldur haframjölshveiti sem ofureinfalt er að gera. Súkkulaðinu smá gjarnan skipta út fyrir rúsínur sé áhugi á því.
Hafraklattar sem maður getur ekki hætt að hugsa um!
70 g haframjölshveiti (haframjöl eða tröllahafrar látið í matvinnsluvél þar til það líkist hveiti)
45 g tröllahafrar
25 g haframjöl
1 tsk lyftiduft
1 tsk kanill
klípa af salti
1 ½ tsk vanilludropar
1 stórt egg
4 msk púðusykur
120 ml kókosolía, fljótandi formi
50-100 g súkkulaðidropar(eða saxað súkkulaði)
- Gerið haframjölshveitið með því að láta haframjöl eða tröllahafra í matvinnsluvél eða blandara og vinna þar til áferðin líkist hveiti. Blandið haframjölshveitinu (mælt eftir að það er orðið að „hveiti“) tröllahöfrum, haframjöli, lyftidufti, kanil og salti saman í skál.
- Í aðrar skál skulu þið hræra saman vanilludropum, eggi og púðusykri. Blandið kókosolíunni (passið að hún sé ekki heit) saman við og blandið öllu vel saman.
- Bætið þurrefnunum saman við eggjahræruna og blandið lauslega saman. Bætið súkkulaðinu saman við.
- Hyljið deigið með plastfilmu eða viskustykki og leyfið að standa í um 30 mínútur í kæli eða þar til það er farið að harðna lítillega. Mótið kúlur úr deiginu og látið á ofnplötu með smjörpappír. Þrýstið aðeins á kúlurnar.
- Setjið í 175°c heitan ofn í um 8-10 mínútur eða þar til þær hafa brúnast örlítið.
Takið úr ofninum og kælið lítillegar áður en þeirra er notið.
Leave a Reply