Ég er að komast í jólaskap – ójá ég er ein af þessum sem kemst í jólaskap aðeins of snemma. Kannski er ein ástæða þess sú að hjá mér byrjar undirbúningur fyrir jólauppskriftir strax í haustbyrjun, jafnvel fyrr. Í fyrra gerði ég til dæmis jólakökubækling í júní. Þannig að jólaskap í nóvember í því samhengi er kannski ekki svo galið.
BÓKIN GULURRAUÐURGRÆNN&SALT
Þessi mánuður er að mínu mati sérstaklega ánægjulegur þar sem ný bók GULURRAUÐURGRÆN&SALT lítur nú dagsins ljós. Bókin er gefin út í tilefni þess að í ár eru 5 ár síðan GulurRauðurGrænn&salt var stofnað og viðtökurnar verið frábærar.
Í þessari fallegu bók má finna einfaldar uppskriftir að nýjum, töfrandi og litríkum réttum frá öllum heimshornum. Bókin er tilvalin í jólapakkann bæði fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref í eldhúsinu sem og þá hreinlega elska að útbúa bragðgóða rétti með lítilli fyrirhöfn. Ég er virkilega stolt af þessari fallegu bók og spennt yfir komu hennar, en hún mun berast í búðir í byrjun næstu viku.
Töfrandi og litríkir réttir frá öllum heimshornum // Myndir: Silvio Palladino
En víkjum okkur nú aftur að jólunum og aðdraganda þeirra. Hafrakökur eru smákökur sem ég baka reyndar allan ársins hring en mér finnst það eiga sérstaklega vel við að baka þær á þessum árstíma. Hér gef ég ykkur uppskrift að frábærum hafraklöttum með kókos og súkkulaðirúsínum sem slá alltaf í gegn á mínu heimili.
Þessar slá í gegn!
Hafrakökur með kókos og súkkulaðirúsínum
Gerir um 30-40 stk
125 g smjör, mjúkt
100 g sykur
100 g púðursykur
1 egg
100 g hveiti
2 tsk vanillusykur
1/2 tsk matarsódi
hnífsoddur salt
75 g kókosmjöl
75 g haframjöl
1-2 dl súkkulaðirúsínur
- Þeytið sykur og egg vel saman þar til blandan er orðin létt og ljós.
- Bætið öllum hráefnunum, nema súkkulaðirúsínunum, saman við og hrærið.
- Bætið að lokum súkkulaðirúsínum saman við og hrærið stuttlega.
- Mótið kúlur úr deiginu og bakið við 200°c heitan ofn í um 7-10 mínútur eða þar til kökurnar eru orðnar gylltar og heimilið farið að ilma af góðri smákökulykt.
- Njótið vel!
Leave a Reply