Ég fékk svo dásamlega sendingu frá Ektafiski um daginn eða ýmsar tegundir af hágæðafiski frá þeim. Það kom sér heldur betur vel enda er ég stöðugt að reyna að auka fiskineyslu fjölskyldunnar. Í sendingunni var meðal annars þessi fallega bleikja sem kemur frá Rifósi í Kelduhverfinu og er víst með þeim betri á markaðinum.
Ég gerði marineringu sem samanstóð af hunangi, soyasósu og pistasíuhnetum. Marineringin var ljúf og mild þannig að gæði bleikjunnar nutu sín og stökkar pistasíuhneturnar settu punktinn yfir i-ið í þessari frábæru máltíð sem ég bar fram með hrísgrjónum og góðu salati.
Hunangsmarineraður silungur með soyasósu og pistasíuhnetum
800 g bleikja/silungur/eða lax
1/4 tsk sjávarsalt
1/4 tsk pipar
4 msk hunang
30 g pístasíuhnetur eða pekanhnetur
1 msk soyasósa, t.d. soya sósa frá Blue dragon
1 msk olía
- Skerið fiskinn í sneiðar og kryddið með salti og pipar.
- Blandið hunangi, pekanhnetum, soyasósu og olíu saman í skál, hrærið vel saman og setjið fiskinn út í marineringuna. Leyfið fiskinum að marinerast í um 15 mínútur.
- Takið fiskinn úr marineringunni (skiljið hana eftir í skálinni) og raðið fiskinum í olíuborið ofnfast mót. Veiðið hneturnar upp úr marineringunni og látið yfir fiskinn.
- Eldið fiskinn í 200°c heitum ofni í um 15 mínútur eða þar til hann er fulleldaður, en varist að ofelda hann. Penslið fiskinn 2-3 á eldunartímanum með marineringunni.
Berið fram með góðu salati.
Nú fer hver að verða síðastur að kaupa bók GulurRauðurGrænn&salt Fljótlegir réttir fyrir sælkera. Bókin er á tilboðsverði eða aðeins 1.500 kr með sendingarkostnaði. Áhugasamir geta keypt bókina með því að senda tölvupóst á berglind@grgs.is.
Leave a Reply