Mér þykir ótrúlega gaman og gott að fá mér super nachos á veitingahúsi. Tosa til mín nachosflögurnar með hrúgu af bræddum osti, salsakjúklingi og dýfa í sýrða rjómann. Hreinn unaður!!
Ég gerði þessa uppskrift um síðustu helgi og nýtti afganginn af límónukjúklinginum frábæra sem var í matinn kvöldinu áður og smellpassaði í þennan rétt. Uppskriftina fékk ég á allrecipies.com en þar fékk hún mikið lof fyrir einfaldleika og gott bragð. Það mátti heyra heimilisfólkið mitt stynja af vellíðan enda er þetta æðislegur réttur sem ég hlakka til að gera þetta aftur..sem fyrst.
Super nachos með bræddum osti & salsakjúklingi
2 hvítlauksrif, pressuð
6 vorlaukar, sneiddir, hvíti og græni hlutar aðskildir
1/4 bréf tacokrydd
3 msk olía
1 kjúklingabringa, elduð og rifin niður
salt og pipar eftir smekk
1 bolli salsa sósa, mild eða medium
ca 350 g nachos
ca 250 g ostur (t.d. mozzarellablanda), rifinn
1 tómatur, skorinn í teninga
ólífur, sneiddar (má sleppa)
jalapenios, saxað (má sleppa)
Aðferð
- Hitið ofninn á 175 °c.
- Léttsteikið á pönnu við meðalhita hvítlaukinn og hvíta hluta vorlauksins í olíunni, þar til blandan er orðin mjúk. Bætið kjúklinginum út í og kryddið vel með taco kryddi. Saltið og piprið. Hrærið aðeins í blöndunni og bætið síðan salsasósunni út í.
- Raðið tortillunum á bökunarplötu og bakið í 5 mínútur og takið út.
- Dreifið kjúklingablöndunni yfir nachosið með skeið. Hellið ostinum yfir og stráið því næst tómatateningunum, ólífum og jalapenio.
- Bakið í ofni í um 10 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn.
- Stráið vorlauknum yfir og berið fram með sýrðum rjóma og mögulega þessu frábæra guacamole.
Leave a Reply