Ég veit ekki hvort ég gæti verið mikið spenntari að deila með ykkur þessari uppskrift. Hún er svo mikið uppáhalds að það eina sem ég get sagt er – gerið þessa! Uppskriftin er hvort í senn dásamleg í einfaldleika sínum og svo bragðgóð að ég hreinlega get ekki beðið eftir því að elda hana aftur.
Hér er á ferðinni mangósalat með stökkri grillaðri andabringu, vorlauk, cashew hnetum og dásamlegri sósu sem toppar allt. Salatið sló í gegn í matarboði sem ég hélt á dögunum en það bar ég fram í fallegri tréskál frá versluninni Snúran en hana má finna á www.snuran.is.
Mangósalat með grilluðum andabringum
fyrir 6
2 Valette andabringur
1/2 iceberg salat, saxað
2 mangó, kjarnhreinsuð og afhýdd, skorin í litla bita
1 búnt vorlaukar, smátt skornir
50 g cashewhnetur, ristaðar
1 handfylli kóríander (má sleppa)
Salatsósa
120 ml ólífuolía
1/2 tsk sesamolía t.d. frá Blue dragon
4 msk hrísgrjónaedik t.d. frá Blue dragon
2 msk hoisin sósa t.d. frá Blue dragon
1 tsk sykur
1 msk engifer, fínrifið
1 hvítlauksrif, pressað
salt og pipar
- Saltið andabringurnar, leggið þær á grillið með fituhliðina niður og snöggbrúnið þær við háan hita í um 2 mínútur á hlið. Setjið þær síðan í álform eða eldfast mót sem þolir að fara á grillið. Setjið andabringurnar á efri hillu á grillinu, lokið því og steikið bringurnar í 10-12 mínútur. Takið af grillinu og leyfið að standa í nokkrar mínútur. Skerið þær þvínæst í litla munnbita.
- Blandið káli, mangó, vorlauk, cashew hnetur, kóríander og andabringum saman í skál.
- Gerið salatsósuna með því að blanda saman ólífuolíu, sesamolíu, ediki, hoisin sósu og sykri. Hrærið vel saman og blandið því næst engifer og hvítlauk saman við. Kryddið eftir smekk. Hellið dressingunni út í salatið og blandið vel saman.
Athugið að uppskriftina má gera með öðru kjöti eins og t.d. kjúklingi eða nautakjöti, mæli þó með því að þið prufið það með stökkum andabringum, algjört delish.
Leave a Reply