Hver elskar ekki stökkar og góðar kartöfluflögur. Ég og mínir elskum þær að minnsta kosti en leiðinlegt hversu ofboðslega hitaeiningaríkar þær geta verið og ef maður er ekki á leiðinni að taka þátt í járnkarlinum eða klífa Evrest getur ást manns á þessum annars dásemdar flögum verið til vandræða.
Það gladdi mig því mjög þegar ég uppgötvaði uppskriftina af þessum ofnbökuðum kartöfluflögum sem eru alveg jafn góðar á bragðið ef ekki betri en þessar sem eru djúpsteikar út í hið óendanlega. Stökkar kryddaðar með hvítlauk og sjávarsalti og jafnvel rósmarín ef maður kýs það.
Skemmtilegt sem forréttur, meðlæti eða sem snarl yfir sjónvarpinu. Mæli með því að tvöfalda skammtinn…þessar hverfa hratt.
Kartöfluflögur með hvítlauk og sjávarsalti
4 kartöflur
2 msk ólífuolía
6 hvítlauksrif, pressuð
sjávarsalt
- Skerið kartöflurnar í mjög þunnar sneiðar annaðhvort t.d. með mandólíni en góður hnífur gengur einnig.
- Setjð kartöflurnar í poka ásamt ólífuolíu og hvítlauk og hristið vel saman.
- Raðið kartöflunum á smjörpappír og setjið í 200°c heitan ofn í 25-30 mínútur eða þar til þær eru orðnar stökkar og gylltar. Saltið með sjávarsalti.
Leave a Reply