Eggjakökur er einfaldar í framkvæmd, frábær næring og ljúffengar á bragðið. Í þessari uppskrift er eggjakakan ofnbökuð sem kemur í veg fyrir að botninn brenni við og er alveg sérstaklega bragðgóð. Frábær sem góður hádegismatur eða léttur kvöldmatur!
Hér er hægt að leika sér með þau hráefni sem til eru í ískápnum hverju sinni. Nota til dæmis sætar kartöflur eða grasker í staðinn fyrir venjulegar kartöflur, grænmeti að eigin vali, kjúkling eða bacon í staðinn fyrir parmaskinku, mjólk í staðinn fyrir rjóma og svona mætti lengi telja. Látið það ekki stöðva ykkur þó eitthvað hráefni vanti og kílið á eina eggjaköku!
Ofnbökuð ommiletta með parmaskinku
400 gr forsoðnar kartöflur, skornar í sneiðar
2 msk ólífuolía
1 rauðlaukur, saxaður
70 gr parmaskinka, klippt í litlar sneiðar
100 gr spínat
basilbúnt, saxað
200 gr plómutómatar, skornir í sneiðar
1 rauð paprika, skorin
fetaostur, hreinn
5 egg
1/2 bolli matreiðslurjómi
2 hvítlauksrif, pressuð
1/2 bolli rifinn parmesan ostur
1/4 rifinn ostur
Aðferð
- Hitið ofninn á 200°C.
- Steikið lauk við meðalhita í 3 mínútur. Bætið parmaskinkunni útí og steikið í aðrar 3 mínútur eða þar til parmaskinkan er orðin gyllt. Bætið þá útí spínati og steikið þar til spínatið er orðið mjúkt.
- Blandið saman laukblöndunni, tómötum, basil og papriku. Raðið helmingnum af kartöflunum í ofnfast mót. Hellið laukblöndunni yfir. Dreifið fetaosti yfir. Endurtakið með afganginum af kartöflunum og laukblöndunni.
- Léttþeytið egg og rjóma saman í skál. Bætið hvítlauknum útí. Hellið blöndunni yfir ofnfasta mótið. Stráið osti og parmesan yfir. Bakið í 30-35 mínútum eða þar til eggin eru fullelduð. Látið standa í 5 mínútur.
Leave a Reply