Nú ætla ég að bjóða ykkur upp á Ris ala mande köku sem ætti að slá í gegn hjá þeim sem halda upp á jólagrautinn. Hér mætast þessi dásamlega kaka og grauturinn góði og úr verður hinn besti eftirréttur toppaður með kirsuberjasósu. Snilldin við þetta er svo að þið getið slegið tvær flugur í einu höggi og gert þessa köku úr grautnum sem verður afgangs yfir jólin. Njótið vel og gleðileg jól.
Ris ala mande kaka
Fyrir ca. 8-10 manns
Botn
12 Digestive kex
50 g smjör, brætt
Myljið kexið í matvinnsluvél eða látið í poka og lemjið það niður. Blandið smjörinu saman við og látið í form. Gott er að láta plasfilmu eða smjörpappír í botninn svo auðvelt sé að losa kökuna.
Grauturinn
200 g grautarhrísgrjón
smá vatn
1 l mjólk
2 vanillustangir
6 msk sykur
4 dl rjómi
100 g möndlur, saxaðar (má sleppa)
3 matarlímsblöð
Byrjið á að hita hrísgrjónin í smá vatni að suðu. Bætið þá mjólkinni saman við og hitið að suðu. Skrúfið hitann niður og látið standa með loki á í 45 mínútur. Hrærið af og til í hrísgrjónunum. Kælið grautinn alveg niður og takið síðan kornin úr vanillustöngunum og bætið þeim út í grautinn ásamt sykrinum.
Þeytið rjóma og setjið saman við grautinn (passið að hann sé kaldur til að rjóminn bráðni ekki).
Setjið 3 matarlímsblöð í kalt vatn í um 3 mínútur. Takið þau síðan úr vatninu og kreystið vatnið af þeim. Setjið þau í pott ásamt örlitlu vatni og hitið þar til matarlímið er orðið að vökva. Hellið því saman við grautinn og hrærið vel í og látið síðann grautinn í formið. Geymið í kæli þar til kakan er orðin stíf.
Kirsuberjasósa
2 fernur/krukkur kirsuberjasósa
1 blað matarlímsblað
Látið matarlímið liggja í köldu vatni í 3 mínútur. Takið úr og kreistið vatnið frá. Sigtið berin frá sósunni og setjið síðan sósuna í pott ásamt matarlíminu og hitið. Kælið sósuna aðeins og hellið síðan yfir kökuna. Geymið í kæli og skreytið síðan að vild t.d. með möndlum eða pistasíuhentum.
Leave a Reply