Ristaðar pekanhnetur

Home / Ristaðar pekanhnetur

Jólin nálgast, hátíð ljóss og friðar. Og matar – mjög, MJÖG mikils matar. Baggalútur er búinn að syngja og umla og stynja um það í frægu lagi. Þó það lag fjalli vissulega aðallega um að borða matinn þarf jú alltaf einhver fyrst að búa hann til. Og jólin fá jafnvel hin eldhúsfælnustu af okkur til að dusta rykið af svuntunni og hefja sleifina á loft. Henda í nokkrar sortir eða skella í rauðkál eða skera meistaraleg laufabrauð eða sjóða niður kraft í sósuna eða … Þið vitið. En til eru fleiri leiðir til að njóta matar heldur en að borða hann. Sælla er að gefa en þiggja, segir í mjög jólalegu máltæki og það getur einnig átt við um eldhúsævintýrin okkar. Því að fáar gjafir sýna betri og persónulegri hug heldur en eitthvað gómsætt sem maður hefur sjálfur búið til. Og þar fyrir utan: hver kann ekki að meta að hafa ennþá fleiri afsakanir til að ganga af göflunum í eldhúsinu? Byrja ennþá fyrr að baka, baka ennþá meira, stærra, betra … ! Hér fylgir uppskrift sem beinlínis bíður eftir því að fara í fallegar umbúðir, fá borða utan um sig og gleðja einhvern nákominn ykkur.  Uppskriftin er af bragðgóðum ristuðum pekanhnetur sem minna á ferðalög erlendis – götusala með beyglaðar pönnur, kol og kramarhús – og koma með jólailminn inn á heimilið. Smellpassa með jólalögum og jólaglöggi.

supa-45

Ristaðar pekanhnetur
2 eggjahvítur
2 tsk vanilludropar
250 g pekanhnetur
110 g púðusykur
¼ tsk salt
1 ½ tsk kanill

  1. Blandið saman eggjahvítu og vanilludropum og þeytið þar til blandan er orðin þétt eða í ca. 5 mínútur. Bætið hnetunum varlega saman við með sleif.
  2. Blandið því næst sykri, salti og kanil vel saman og húðið hneturnar með blöndunni.
  3. Leggið hneturnar á ofnplötu með smjörpappír, saltið lítillega og bakið í ofni við 175°c í um klukkustund og hrærið reglulega í hnetunum.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.