Þetta byrjaði allt með því að ég stóð í röð.. já eða nei sko ef ég ætla að byrja á byrjuninni að þá byrjaði þetta á flugfreyjuárum mínum hjá Icelandair þegar ég flaug til Minneapolis og fékk þar dásemdar túnfiskssteik með wasabimús í einu stoppinu. Þvílík snilld sem sú máltíð var og er mér enn minnisstæð.
En allavegana að þá stóð ég nýlega í röð (já spennandi..bíðið bara ) búin að ákveða að hafa fisk í matinn en ekki alveg viss um hvernig ég ætlaði að elda hann. Þá heyrði ég fólk vera að tala um hversu ótrúlega góð wasabi kartöflumús væri. Hafandi verið í eitt ár í fæðingarorlofi og aðeins of mikið ein með litlu barni, nota ég hvert tækifæri til að spjalla við fullorðið fólk og tróð mér því inn í þessar samræður og lét þau vita af því að ég væri sko hjartanlega sammála..einmitt gott hjá mér!! En allavegana að þá var hugmyndin að kvöldmatnum komin og nú er það bara okkar að njóta!
Uppskriftin er mjög einföld og tekur ekki langan tíma að gera en gott er það á bragðið. Ég notaði næstum eina túpu af wasabi þar sem ég náði ekki þessu sterka bragði sem ég vildi með rétt rúmri einni teskeið. Hugsanlega er betra að kaupa duft og blanda það sjálfur til að ná þessu sterka bragði með minna magni. Börnin borðuðu réttinn með bestu lyst, jafnvel sá sem er viðkvæmastur fyrir sterku, þannig að þessi réttur hentar öllum og þið bara stjórnið því sjálf hversu sterkt kartöflumúsin er.
Sesamlax
500 g laxaflök, roðflett og beinhreinsuð
2 msk soyasósa
1 1/2 msk hunang
1 msk sesamolía
2 hvitlauksrif, smátt söxuð
1 1/2 tsk engifer, smátt saxað
sesamfræ
Aðferð
- Hitið ofninn á 210°c.
- Blandið saman í skál soyasósu, hunangi, sesamolíu, hvítlauknum og engiferinu.
- Skerið laxinn í 4 bita og leggið í olíupenslað mót. Hellið matskeið af blöndunni yfir fiskibita og nuddið blöndunni inn í fiskinn með skeiðinni. Snúið bitanum við og gerið eins þeim megin. Endurtakið með hina bitana.
- Bakið í ofni í um 8 mínútur. Stráið sesamfræum yfir fiskinn. Látið fiskinn aftur inn í um 1-2 mínútur.
- Berið fram með wasabi kartöflumús.
Wasabi karöflumús
1 kg kartöflur, afhýddar og skornar í bita
4 msk smjör
1/2 bolli mjólk
1/2 bolli matreiðslurjómi
1 1/2 tsk wasabi paste (jafnvel mun meira)
salt og pipar
Aðferð
- Sjóðið kartöflurnar í saltvatni í um 15-20 mínútur eða þar til þær eru orðnar mjúkar.
- Hellið vatninu af og hitið kartöflurnar í potti í um 1-2 mínútur til að ná vatninu frá.
- Hitið smjör, mjólk og rjóma í litlum potti þar til smjörið bráðnar. Hrærið wasabi út í.
- Hellið mjólkurblöndunni saman við kartöflurnar og stappið.
- Saltið og piprið og bætið mögulega meira wasabi út í og mjólk/rjóma ef þarf.
Leave a Reply