Gestabloggarinn að þessu sinni er hún Marta María en hún gaf nýverið út sína fyrstu matreiðslubók sem ber nafnið MMM. Í henni má finna á annað hundrað heilsusamlegar sælkerauppskriftir (og örfáar sem eru ekki alveg eins hollar en ekki síður æðislegar) að morgunverðarréttum, drykkjum, nesti í skólann og vinnuna, kvöldmat handa fjölskyldunni og veitingum í vinaboðin.
Í MMM eru uppskriftirnar girnilegar, einfaldar í gerð og myndirnar í bókinni sérstaklega fallegar. Marta samþykkti að leyfa mér að birta uppskrift af snickerskökunni sem hefur gjörsamlega slegið í gegn. Njótið hennar vel.
Hér er ljósmyndari bókarinnar Guðný Hilmarsdóttur ásamt Mörtu Maríu
Snickerskaka
200 g möndlur, sólblómafræ og brasilíuhnetur (blandað saman)
½ dl kókosolía
1 dl hnetusmjör
2 msk hampfræ
1 tsk vanilluduft
svolítið gróft salt
3 msk hlynsíróp
Karamella
2 msk hlynsíróp
1 dl hnetusmjör
1 tsk kakó
gróft salt
1 dl kalt vatn
1 dl salthnetur til að setja út á karamelluna
Súkkulaði
1 dl kókosolía
½ dl kakó
gróft salt
2 msk hlynsíróp
- Settu allt hráefnið sem fer í botninn í matvinnsluvél og blandaðu því vel saman. Settu það í form sem klætt er innan með bökunarpappír og þjappaðu því niður. Settu formið í frysti í smástund á meðan karamellan er útbúin.
- Settu allt hráefnið sem er í henni, nema salthneturnar, í blandara og þeyttu saman. Dreifðu salthnetum yfir kökubotninn og helltu því næst karamellublöndunni yfir. Settu kökuna aftur í frysti.
- Hrærðu súkkulaðihjúpinn saman í skál og dreifðu jafnt yfir frosna Snickerskökuna.
Leave a Reply