Fiskiátakið mikla er hafið enn eina ferðina og hefst á þessum himneska fiskrétti sem veldur engum vonbrigðum. Mánudagsfiskurinn verður hátíðarmatur með þessum fljótlega, góða og holla rétti.
Sæta chilímaukið er passlega sterkt, en ef þið eruð efins að þá látið þið aðeins minna af chilíflögunum og bætið svo meira út í eftir smekk. Þegar ég hef ekki átt chilíflögur hef ég leikið mér aðeins með réttinn og notað chilímauk í staðinn (minched chilí sem fæst t.d. frá Blue dragon) en þá hef ég notað um 2-3 tsk. Frábært að bera hann fram með sætkartöflumús og grænmeti að eigin vali.
Lax með sætu chilímauki
7-800 g laxaflak, beinhreinsað
3 msk soyasósa, t.d. frá Blue dragon
1 msk engifer, rifið
Sætt chilímauk
4 msk olífuolía
3 tsk hvítlauksmauk (minched garlic), t.d. frá Blue dragon
3 skarlottulaukar, saxaðir
3 msk rauðar piparflögur (eða cayennepipar)
3 msk fish sauce
2 msk hrásykur (eða hunang)
1 ½ msk safi úr límónu
2 msk vatn
- Hitið olíu á pönnu við meðalhita. Bætið lauknum og hvítlauksmauki út á pönnuna og léttsteikið í um 2 mínútur. Setjið í matvinnsluvél eða mortel og blandið vel saman. Bætið piparflögunum, fiskisósunni, sykri, límónusafa og vatni saman við og blandið þar til þetta er orðið að mauki. Setjið maukið síðan á pönnuna og hitið í nokkrar mínútur. Ef maukið er of þykkt bætið smá vatni saman við.
- Látið maukið í grunnt fat og bætið soyasósu og rifnu engifer saman við. Leggið laxinn á marineringuna og geymið í kæli í 30 mínútur eða lengur.
- Leggið álpappír á ofnplötu og smyrjið lauslega með ólífuolíu. Leggið fiskinn á álpappírinn og setjið smá af marineringunni yfir hann. Leggið álpappír lauslega yfir fiskinn og setjið inn í 180°c heitan ofn í 15 mínútur. Fjarlægið þá álpappírinn, stillið á grill og eldið í um 3 mínútur til viðbótar.
Leave a Reply