Það er fátt dásamlegra en góð súpa. Súpur ylja og gleðja á köldum vetrardögum og skilja mann eftir sælan, sáttan og passlega saddan. Þegar ég er með fjölmennar veislur geri ég oftar en ekki súpu af einhverri gerð. Ég gerði þessa tómata og basilsúpu um daginn og bar fram með þessu einfalda brauði sem alltaf bragðast frábærlega. Ég treð kókosmjólk í allar súpur sem ég geri og vel hana fram yfir rjómann við súpugerð. Kókosmjólkin gefur gott og suðrænt bragð sem ég sæki sérstaklega mikið í þegar það virðist alltaf vera nótt á þessu blessaða landi okkar. En já góð er súpan!
Tómata & basilsúpa
3 hvítlauksrif, pressuð
2 msk ólífuolía
800 g tómatar í dósum, niðurskornu
400 g tómatar í dósum, heilir
480 ml vatn
2 teningar kjúklinga- eða grænmetiskraftur
1 msk sjávarsalt
1 msk sykur
1/2 msk pipar
60 ml rjómi eða 1 dós kókosmjólk
3 msk fersk basilíka, söxuð
parmesan
Aðferð
- Steikið hvítlaukinn í ólífuolíu við meðalhita í potti í um 1 mínútu. Varist að brenna hvítlaukinn.
- Bætið út í niðurskornu tómötunum og því næst heilu tómötunum með því að kreista þá í pottinn, einn í einu. Látið jafnframt safann af tómötunum út í.
- Látið í pottinn vatn, kraftinn, salt, pipar og sykur.
- Látið súpuna malla við meðalhita í um 10 mínútur.
- Lækkið hitann og hrærið út í kókosmjólkinni/rjómanum og basil.
- Látið í skál og skreytið með parmesan.
Leave a Reply